aðvörunarkefir almannavarnaViðvörunarkerfi sem getur sent neyðarskilaboð (sms) í farsíma vegna hættu hefur verið þróað til notkunar fyrir almannavarnir hér á landi. Kerfið virkar með þeim hætti að hægt er að senda boð um yfirvofandi hættu í farsíma til íbúa og ferðamanna á ákveðnum svæðum svo fremi að þar sé farsímasamband. Eftir að landsvæði hefur verið valið getur Neyðarlínan kallað fram alla farsíma, erlenda og innlenda, sem eru innan þjónustusvæðis símafyrirtækjanna á því svæði og sent neyðarskilaboð með upplýsingum um aðsteðjandi hættu og leiðbeiningum þar að lútandi í þá farsíma sem koma fram í kerfinu. Til að byrja með verða neyðarboðin send á íslensku og ensku frá Neyðarlínunni frá númerinu 112  og aðeins þegar nauðsyn krefur.

Kerfið verður prófað þriðjudaginn 29. maí um klukkan 16:00 og verða þá send prófunarboð í farsíma á þjónustusvæðum í og við Vík í Mýrdal. 

Að verkefninu standa Neyðarlínan, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Síminn, Nova, Vodafone og hugbúnaðarfyrirtækið Samsýn. Margir aðilar hafa lagt sitt af mörkum við þróun og prófanir á kerfinu og var einnig samþykkt fjárveiting af Alþingi til verkefnisins.

Viðvörunarkefið er mikilvægt skref í að auka öryggi íbúa landsins og ferðamanna og verður notað ásamt öðrum hefðbundnum viðvörunum almannavarna.
Á meðfylgjandi skjámynd má sjá hvernig hægt er að kalla fram upplýsingar um farsíma í nágrenni Heklu í kerfinu.

Birt:
25. maí 2012
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Viðvörunarboð almannavarna í farsíma“, Náttúran.is: 25. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/25/vidvorunarbod-almannavarna-i-farsima/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: