Landvernd efnir til opins fundar um stjórnun þjóðgarðsins á Þingvöllum og álag á vistkerfi Þingvallavatns. Fundurinn átti upphaflega að vera haldinn í Norræna húsinu, í dag þriðjudaginn 17. janúar en hefur verið frestað v. veikinda til þriðjudagsins 24. janúar kl. 12-13:30.

Sigrún Helgadóttir flytur fyrirlestur undir heitinu ,,Þingvellir, alvöru þjóðgarður?“ og Hilmar J. Malmquist flytur fyrirlesturinn ,,Þingvallavatn: Dýrmætt vistkerfi undir álagi“.

Í fyrirlestrunum verður leitað svara við ýmsum mikilvægum spurningum, m.a.: Hvernig þjóðgarður er á Þingvöllum? Er rétt að hann starfi undir stjórn þingmanna? Hvernig er staðið að verndun lífríkis og menningarminja? Hvaða áhrif hefur aukin umferð á tærleika og lífríki Þingvallavatns? En bústaðabyggðin? Hvað með Nesjavallavirkjun? Er þessi ,,helgistaður þjóðarinnar“ undir of miklu álagi?

Fundarstjóri er Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar. Viðburðurinn er haldinn í samvinnu við Norræna húsið. Allir velkomnir.

Hér að neðan eru útdrættir úr erindum Sigrúnar og Hilmars:

Þingvellir, alvöru þjóðgarður?
Sigrún Helgadóttir, náttúrufræðingur

Þingvellir töldust lengi vel ekki þjóðgarður samkvæmt lögum heldur „helgistaður þjóðarinnar“. Með lögum frá árinu 2004 var friðlýsta svæðið stækkað umtalsvert sem þjóðgarður en er sem fyrr undir umsjón Þingvallanefndar. Á síðasta ári efndi Þingvallanefnd til hugmyndaleitar um þjóðgarðinn. Fjölmargar tillögur bárust um skipulag, framkvæmdir og tilhögun í þjóðgarðinum. Sérstök dómnefnd valdi fimm tillögur til viðurkenningar og ein af þeim var tillaga Sigrúnar Helgadóttur; Þingvellir, alvöru þjóðgarður. Sigrún er einnig höfundur bókarinnar Þingvellir, þjóðgarður og heimsminjar sem kom út nú fyrir jólin. Í erindi sínu mun Sigrún fara yfir nokkur þau stjórnunar og skipulagsatriði sem jafnan er gert ráð fyrir að uppfyllt séu í þjóðgörðum og ræða um Þingvallaþjóðgarð með tilliti til þeirra. Mörg þessara atriða eru umdeild og hafa verið í áratugi, til dæmis: Á þjóðgarðurinn áfram að vera undir stjórn alþingismanna eða færast undir fagstofnun eins og önnur friðlýst svæði landsins? Hvernig hefur verið staðið að friðun og verndun lífríkis þjóðgarðsins svo og fornleifa hans? Á að endurheimta land þjóðgarðsins, s.s. skógræktarsvæðin, og vinna að ýmiss konar lagfæringum á því sem afvega telst hafa farið? Hvernig á að þjóna ferðamönnum í þjóðgarðinum t.d. með gönguleiðum og upplýsingum?

Þingvallavatn: dýrmætt vistkerfi undir álagi

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs

Fjallað verður um sérstöðu Þingvallavatnsvistkerfisins og ástand vatnsins m.t.t. vatnsgæða og álagsþátta, einkum er varðar mengun frá umferð, bústaðabyggð og Nesjavallavirkjun. Byggt er á nýlegum rannsóknaniðurstöðum í vöktunarverkefni sem Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur sinnt síðan 2007 og jafnframt stuðst við aðrar rannsóknir sem sumar hverjar ná aftur til 1975–80. Vísbendingar eru um að þörungavöxtur hafi aukist í vatninu á allra síðustu árum, einkum seint um haust og snemma vetrar. Þetta kemur fram bæði í mælingum á þörungmagni og sjóndýpi. Skýringar að baki þessum breytingum liggja ekki ljósar fyrir en líklega má rekja þær til hlýnunar og aukinnar ákomu næringarefna. Næringarefnauðgunin stafar að líkindum af aukinni umferð, þéttingu bústaðabyggðar og auknu rofi á landi sem tengist loftslagshlýnun. Í rannsókn sem fór fram árið 2003 á áhrifum affallsvatns frá Nesjavallavirkjun á Þingvallavatn kom fram að staðbundinnar hitamengunar gætti við vatnið sunnanvert. Hitaáhrifin á lífríkið voru bundin við dýpi sem var um og innan við 0,4 m. Þar sem umtalsverðra hitaáhrifa gætti voru samfélög rykmýstegunda einsleitari og lífslíkur vatnabobba minni en ella. Mild hitaáhrif virtust hins vegar auka vaxtarhraða og lífslíkur vatnabobba. Í rannsókn sem fór fram árið 2008 á kvikasilfursmagni í urriða í Þingvallavatni og 11 öðrum stöðuvötnum kom fram að heildarstyrkur kvikasilfurs réðist að langmestu leyti af lengd urriða og útskolunartíma þess vatns sem hann lifir í. Almennt gildir að styrkur kvikasilfurs í urriða vex eftir því sem fiskurinn verður stærri og eldri og því lengri sem viðstöðutími vatnsins er. Skýringarnar á þessu eru af náttúrulegum toga. Í Þingvallavatni mældist kvikasilfursmagn í stórum urriðum í nokkrum tilfellum töluvert meiri en neyslumörk mæla fyrir um fyrir viðkvæma hópa. Ekki er hægt að tengja þessi tilfelli við starfsemi jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu.

Ljósmynd: Frá Þingvöllum, Árni Tryggvason.

Birt:
Jan. 17, 2012
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Hvað ógnar lífríki Þingvallavatns og náttúru þjóðgarðsins?“, Náttúran.is: Jan. 17, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/11/hvad-ognar-lifriki-thingvallavatns-og-natturu-thjo/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 11, 2012
breytt: Jan. 17, 2012

Messages: