Bæjarstjórn samþykkti friðun
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum í gær tillögur um friðlýsingu Skerjafjarðar.
Kosið var um tillögurnar í tvennu lagi. Annars vegar var kosið um friðlýsingu í Kópavogi og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Hins vegar var kosið um friðlýsingu Fossvogs. Hún var samþykkt með öllum atkvæðum meirihlutans í bæjarstjórn, tveir bæjarfulltrúar sátu hjá og þrír bæjarfulltrúar greiddu atkvæði á móti tillögunni.
Fjallað var um málið á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs í síðustu viku. Fulltrúar meirihlutans vilja að bæjarstjórn samþykki tillögu að friðlýsingu og semji við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofu Kópavogsbæjar um umsjón og rekstur svæðisins. Fulltrúar meirihlutans koma úr röðum Samfylkingar, Vinstri-grænna og Næst besta flokksins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks eru hins vegar andvígir hugmyndum um friðlýsingu og segja að nú þegar sé bæjarvernd á leirum í Kópavogi og Fossvogi. Þeir telja að ekki hafi verið sýnt fram á að ávinningur sé af friðlýsingu umfram bæjarvernd. Þá finnst þeim eðlilegt að ákvörðunarvald í málefnum Kópavogs sé í höndum bæjarstjórnar en ekki ráðherra í ríkisstjórn. Síðast nefnda atriðinu vísuðu fulltrúar meirihlutans á bug og sögðu að kjörnir fulltrúar í Kópavogi hafi áfram ákvörðunarvald yfir hinu friðlýsta svæði.
Kort: Kópavogur og Fossvogur, skjáskot af Infrapath Kópavogur á vef Kópavogsbæjar.
Birt:
Tilvitnun:
Rúv „Bæjarstjórn samþykkti friðun“, Náttúran.is: 12. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/12/baejarstjorn-samthykkti-fridun/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.