Sjálfshólstilnefningar vefiðnaðarins
Nú hefur vefur Náttúrunnar verið í þjónustu umhverfisins í næstum 5 ár og langaði mig því að skoða þann möguleika að vefurinn yrði tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna sem veitt eru árlega á vegum SVEF Samtaka vefiðnaðarins. Að baki hugmyndar minnar liggja ýmsar forsendur sem mér sem frumkvöðuls verkefnisins finnst kannski ekki endilega við hæfi að ég tiltaki sjálf heldur er það að mínu mati í höndum lesenda vefsins að dæma og undir kringumstæðum að tilnefna Náttúran.is til vefverðlauna, eða ekki. Alveg eins og þegar ég held myndlistarsýningar þá skrifa ég sjálf hvorki gagnrýni um sýninguna, né get ég ákveðið hvort hún hrífi áhorfendur með sér. Gagnrýnendur og almenningur dæmir mannanna verk og þykir það eðlilegt í öllum lýðræðisríkjum.
Á vef SVEF er þó ljóst að aðeins þeim sem eiga sjálfir hagsmuna að gæta, þ.e. vefjunum sjálfum, eða réttara sagt forsvarsmönnum þeirra er ætlað að taka þátt í þessu vali um bestu vefi landsins, þar sem ætlast er til að tilnefnari greiði gjald fyrir tilnefninguna.
Að tilnefna í einum flokki, t.d. í flokknum „Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn“ kostar kr. 9.900. Að tilnefna vef í tveim flokkum t.d. „Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn og Besti sölu- og kynningarvefurinn (undir 50 starfsmönnum)“ þá kostar það tilnefnara heilar 19.800 kr. Ef vefur er tilnefndur í öllum flokkum kosta herlegheitin 60.400 kr. Af þessu má vera deginum ljósara, að þrátt fyrir mikinn áhuga á tilteknum vef myndi „enginn“ utanaðkomandi leggja fram það mikla fjármuni eingöngu til að tilnefna uppáhaldsvef sinn til Íslensku vefverðlaunanna.
Mér virðist því augsýnilegt að hér sé á ferðinni gamaldags (sbr. 2007) og ólýðræðislegt val veffyrirtækjanna um að tilnefna sig sjálf og því fleiri starfsmenn sem fyrirtækið hefur í þjónustunni sinni, því meiri möguleika hefur það á að vinna. Líklegar en ekki endurgreiðir þá viðkomandi fyrirtæki starfsmönnum sínum til að tilnefna vinnuveitendur sína.
Náttúran.is á því greinilega, bæði hugmyndafræðilega og fjárhagslega, enga samleið með Íslensku vefverðlaununum, uppskeruhátið vefiðnaðarins, jafnvel þó að okkur mörgum þætti að starf okkar í almannaþágu og baráttu fyrir sjálfbærri framtíð ætti sannarlega skilið að hljóta þessi verðlaun.
Grafík: Skjáskot af hluta tilnefningarsíðu SVEF.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sjálfshólstilnefningar vefiðnaðarins“, Náttúran.is: 8. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/08/sjalfsholstilnefningar-vefidnadarins/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. janúar 2012