Alltof mikið magn af þungmálminum kadmíum fannst í ellefu tegundum af áburði sem Skeljungur seldi í fyrra. Efnið getur verið krabbameinsvaldandi og hefur Matvælastofnun bannað sölu og dreifingu á áburðinum.

Matvælastofnun hefur á hverju ári eftirlit með áburði sem seldur er hér á landi. Í skýrslu um áburðareftirlit fyrir árið 2011 kemur fram að fjölmargar tegundir af áburði hafi innihaldið alltof mikið magn þungmálmsins kadmíums. Verst hafi ástandið verið hjá fyrirtækinu Skeljungi. Sýni voru tekin úr 13 tegundum sem fyrirtækið flytur inn og í 11 þeirra reyndist magn kadmíums verulega yfir leyfðum mörkum.

Magn kadmíums í áburði má ekki fara yfir 50 milligrömm á hvert kíló fosfórs. Hjá Skeljungi fór það í allt að 159 milligrömm á hvert kíló, sem er meira en þrefalt of mikið. Í mörgum tilfellum var magnið á bilinu tvisvar til þrisvar sinnum of mikið.

„Við lítum svona mál mjög alvarlegum augum því að þarna er klárlega bort á okkar reglugerðum um þessi hámörk á kadmíum og við viljum koma í veg fyrir þetta eins og við getum,“ segir Valgeir Bjarnason, sérfræðingur hjá Matvælastofnun.

Kadmíum telst til óæskilegra þungmálma sem safnast fyrir í vefjum lífvera og í vistkerfum. Þannig safnast það til dæmis fyrir í innyflum dýra sem ýmis matvara er unnin úr, og í kartöflum og grænmeti. Á vef Umhverfisstofnunar segir að efnið sé hugsanlega krabbameinsvaldandi, það veiki bein, skemmi nýru og lungu og valdi beinverkjum í liðamótum.

Valgeir segir að mikið af áburði sem innihélt of mikið kadmíum hafi farið á íslensk tún í fyrra. „Þetta eru svona 10 - 12 þúsund tonn sem hafa verið með þessum galla.“

Hingað til hefur fosfór í áburði hjá Skeljungi komið frá Rússlandi, en í fyrra kom hann frá Norður-Afríku, og reyndist hann innihalda mun meira kadmíum en sá rússneski. „Það kom svona aftan að okkur - við höfðum ekki hugmynd um þetta, þetta hafði verið í lagi fram til ársins í ár og ekkert kadmíum mælst í áburði frá Skeljungi þangað til.“

Matvælastofnun hefur bannað sölu og dreifingu á umræddum áburði.

Ljósmynd: Baula í Borgarfirði, Árni Tryggvason.

Birt:
Jan. 3, 2012
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Alltof mikið kadmíum í áburði “, Náttúran.is: Jan. 3, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/04/alltof-mikid-kadmium-i-aburdi/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 4, 2012
breytt: Jan. 5, 2012

Messages: