Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands efna til gönguferðar um Eldvörp og Eldvarpahraun á annan í hvítasunnu. Lagt verður af stað frá Húsatóftum við Grindavík kl. 11:00.

Gengið verður eftir Árnastíg, gamalli þjóðleið sem Staðhverfingar notuðu til ferða milli Húsatófta og Njarðvíkur. Liggur hún í gegnum áhugavert hraunið sem kennt er við Sundvörðu. Þaðan er haldið inn á svokallaðan Brauðstíg.

Við Brauðstíg, skammt frá Eldvörpum, er að finna Tyrkjabyrgin svokölluðu, fornminjar sem hugsanlega eru frá því snemma á 17. öld og verða þau skoðuð. Þaðan verður svo haldið upp í Eldvörp.

Gengið verðu meðfram gígaröðinni til suðvesturs eftir svoköllum Reykjavegi. Áhugaverðir gígar og hrauntraðir eru á þeirri leið.

Skammt við enda gígaraðarinnar er beygt inn á Prestastíg, gamla þjóðleið milli Hafna og Grindavíkur og honum fylgt til Hústófta. Á þeirri leið horfum við m.a. inn í ógnardjúpar jarðsprungur sem tilheyra einni af fjórum sprungureinum Reykjanesskagans.

Um sannkallaða jarðfræðiveislu er að ræða en Eldvörp eru falleg og stórbrotinn gígaröð, um 10 km löng sem gaus síðast á 13. öld. Þetta svæði var sett í orkunýtingarflokk í þingsályktunartillögu að Rammaáætlun.

Leiðsögumenn eru Ellert Grétarsson, náttúruljósmyndari og leiðsögumaður og Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur.

Gangan er fremur löng, alls 13km en ekkert á fótinn. Göngutími er u.þ.b. 4 klst með hvíldar- og fræðslustoppum. Ekkert vatn er á leiðinni og því er gott að hafa með sér 1ltr. af vatni og gott, orkuríkt nesti. Betra er að vera vel skóaður í gönguskóm.

Gönguleiðin hefst rétt austan við golfvöllinn vestan við Grindavík (sjá mynd). Hægt er að leggja bílum neðan vegarins. Mælst er til þess að þáttakendur hittist á mislægu gatnamótunum við Grindavíkurafleggjara kl. 10:30 og sameinist í bíla.

Lagt verður af stað kl. 11:00. Allir eru á eigin ábyrgð. Þátttökugjald er kr. 500 sem rennur til rekstrar og baráttu NSVE.

Ljósmynd: Keilir ©Árni Tryggvason.

Birt:
23. maí 2012
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands „Gönguferð í Eldvörp“, Náttúran.is: 23. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/23/gonguferd-i-eldvorp/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: