Um erfðabreytta ræktun að Reykjum í Ölfusi og yfirlýsingar formanns Neytendasamtakanna
Á vefsíðu Vísis og í Fréttablaðinu í gær þ. 3. janúar var viðtal við Jóhannes Gunnarsson formann Neytendasamtakanna vegna greinargerðar (sjá greinargerðina hér), sem Jóhannes vill meina að ekki hafi verið borin formlega undir né samþykkt af Neytendasamtökunum. Þar sem ég er aðili að umræddri greinargerð, sem fjallar um landnám erfðabreyttra lífvera að Reykjum í Ölfusi og mótmæli nokurra íbúa, stofnana og félagasamtaka vegna þessa landnáms og þar sem ég kynnti málið einnig fyrir Neytendasamtökunum, vil ég koma eftirfarandi á framfæri fyrrnefndra fjölmiðla.
Umrætt málefni var upphaflega kynnt Neytendasamtökunum þann 1. desember sl. og síðan sett á dagskrá starfshóps Neytendasamtakanna, sem fjallar um Umhverfi, matvæli og siðræna neyslu, á fundi sem fram fór þann 8.desember sl. Í umræddum starfshópi eru sérfræðingar á ýmsum sviðum, m.a. í umhverfismálum og um erfðabreyttar lífverur. Kynnti ég málið formlega þarna á fundinum fyrir félögum mínum þ.m.t. Jóhannesi formanni. Var málið kynnt ítarlega við góðar undirtektir starfshópsins og formaður kvaðst mundi skrifa forstjóra Umhverfisstofnunar og leggja málið einnig fyrir stjórn Neytendasamtakanna á þriðjudaginn (væntanlega þann 13. desember). Eins og fram kemur hér að framan voru Neytendasamtökunum áður send drög að greinargerðinni, ekki komu athugasemdir, fyr en rétt fyrir fundinn að Jóhannes kom með athugasemdir og var greinargerðinni breytt í samræmi við þær athugasemdir. Var orðalag í lokadrögum í greinargerð okkar á þá leið unnið í samstarfi eftirfarandi aðila, og m.a. Neytendasamtökin talin þar upp.
Bent er á að starfsleyfi það, sem málið fjallar um, er dagsett þann 30. nóvember sl. Frestur til athugasemda til Umhverfisstofnunar var til 30. desember. Ljóst var því að nokkuð þyrfti að hraða málinu og gera athugasemdir fyrir tilskilinn frest. Formlegt samþykki stjórnar Neytendasamtakanna hefur enn ekki borist og nafn samtakanna því ekki með á greinargerðinni, sem send var forstjóra Umhverfisstofnunar.
Málið er nokkuð sérstakt, m.a. vegna þess að Neytendasamtökin hafa um árabil haldið uppi fræðslu um erfðabreyttar lífverur og nauðsyn þess að neysluvörur, sem innihalda slíkt séu merktar, m.a. meir en nokkur annar opinber aðili hér á landi, bæði á þingum sínum, mörgum fundum og í hinu ágæta Neytendablaði, sem og með málflutningi í öðrum fjölmiðlum. Neytendasamtökin eru jafnframt aðilar að og einn helsti stuðningsaðili Kynningarátaks um erfðabreyttar lífverur, en eftirtaldir aðilar standa að kynningarátakinu um erfðabreyttar lífverur: Landvernd, Matvæla- og veitingafélag Íslands, Náttúrulækningafélag Íslands, Neytendasamtökin, Slow Food Reykjavík og Vottunarstofan Tún. Markmiðið með átakinu er að upplýsa um kosti og galla erfðatækninnar, að vinna gegn sleppingu erfðabreyttra lífvera í ljósi óvissu um áhrif þeirra á umhverfi og heilsufar, og að löggjöf um þessi mál verði hert til muna.. Bendi ég öllum á að kynna sér málefnið á vefsíðunni www.erfdabreytt.net.
Hveragerði 3. janúar 2012
Birgir Þórðarson, náttúrufræðingur
Ljósmynd: Erfðabreytt byggræktun í gróðurhúsi að Reykjum í Ölfusi. Myndin er tekin þ. 26. des. sl., Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Birgir Þórðarson „Um erfðabreytta ræktun að Reykjum í Ölfusi og yfirlýsingar formanns Neytendasamtakanna“, Náttúran.is: 4. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/04/um-erfdabreytta-raektun-ad-reykjum-i-olfusi-og-yfi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.