Munið eftir smáfuglunum
Nú er hart í ári fyrir smáfuglana okkar, víða djúpt að kroppa í gegnum snjóinn. Það er því mikilvægt að við hugsum til okkar litlu vina og gefum þeim lítið eitt af borði okkar, það munar um það. Það er auðvitað hægt að fara út í búð og kaupa poka af fuglafóðri en við gömlum eplum, ögn af fitu eða öðrum matarafgöngum verður varla fúlsað. Varast ber þó að gefa þeim haframjöl því það getur bólgnað upp í maga þeirra.
Fuglaverndarfélag Íslands gefur eftirtalin ráð: „Í kuldum og frosthörkum þurfa fuglarnir mikla orku til að halda á sér hita og því er fita ein besta fæðan handa þeim. Margir gefa fuglum fitu sem fellur til á heimilum eins og tólg, kjötsag, flot og mör, en þessi fæða er mjög vinsæl hjá mörgum fuglum. Kjötsag er hægt að fá í kjötvinnslum og þeim kjötbúðum eða kjötborðum, þar sem kjöt er sagað. Samkeppni er þó töluverð um sagið, t.d. við hundaeigendur. Mör er hægt að kaupa á haustin, þegar slátur er selt og stundum í kjötvinnslum fram eftir vetri. Aðra kjötafganga er líka hægt að brúka. Á jólum er tilvalið að færa fuglum hangiflotið. Ýmsir blanda fitu, t.d. tólg, smjörlíki eða matarolíu, saman við aðra fæðu, eins og brauð og jafnvel korn. Slík fæða heldur oft í lífi í fuglum, sem hafa hrakist hingað um haustið og reyna að þreyja þorrann og góuna. Nefna má hettusöngvara, glóbrysting og ýmsar finkur sem dæmi um þess háttar hrakningsfugla.“
Grafík: Smáfugl um vetur, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Munið eftir smáfuglunum“, Náttúran.is: 13. janúar 2014 URL: http://nature.is/d/2008/01/19/munio-eftir-smafuglunum/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. janúar 2008
breytt: 28. desember 2013