Áramótabrennur - tímaskekkja eða nauðsyn?
Nú fara sjálfboðaliðar og sveitarfélög um land allt að huga að áramótabrennum.
Hér á árum áður var allt týnt til og brennur jafnvel notaðar til að losa sig við allskonar hluti, sem fólki fannst hafa lokið nytjahlutverki sínu, algengt var t.d. að losa sig við báta af öllum stærðum á áramótabrennuna, heilu bílafarmar af dekkjum og úrgangsolía þótti hentugur brennuvaki!
Nú, sem betur fer, er aðeins breytt hugsun um hvað megi brenna, án þess að veruleg umhverfis- og mengunarhætta stafi af. Þess má geta að á Hvolsvelli í Rangárvallasýslu, en sem kunnugt er það hérað m.a. þekkt fyrir brennur, sbr. Njálu, hafa brennumenn í ár komið sér upp umhverfisvænum áramóta bálkesti, sem einungis er úr timbri; mest notuð vörubretti og trjágreinar, sem klipptar voru nú í desember meðfram gangstéttum. – Betra getur það vart orðið.
Sérstakt leyfi þarf frá heilbrigðiseftirliti, lögreglu og brunavörnum til að halda brennu, þar kemur m.a. fram hvernig standa skuli að málum og hvað megi brenna. Fram kemur í brennuleyfi að óheimilt er að hefja söfnun í brennu fyrr en endanlegt leyfi lögregluyfirvalda liggur fyrir ásamt jákvæðri umsögn slökkviliðsstjóra. Veitt er leyfi fyrir allt að 450 m3 að stærð enda sé stærð hennar í samræmi við sameiginlegar leiðbeiningar Brunamálastofnunar ríkisins, Umhverfisstofnunar og Ríkislögreglustjóra. „Bálkestir og brennur. Leiðbeiningar um vinnutilhögun og leyfisveitingar“.
Óheimilt er að kveikja í brennunni ef vindátt er óhagstæð að mati lögreglu. Verði notuð olía, við uppkveikju ber að halda notkun hennar í lágmarki. Eingöngu má nota olíu sem afhent er beint frá olíufélagi. Þá skal ekki hella á brennuna fyrr en í fyrsta lagi einum klukkutíma áður en kveik er í og þegar brennan er í „fullu báli“ á ekki að hella meiri olíu á eldinn. Á brennustæði skal vera þykkur og þéttur leirkendur jarðvegur sem getur bundið olíu og fangað þau spilliefni sem niður fara.
Leyfilegt er að brenna timbur og pappa. Ábyrgðarmanni brennu er skylt að sjá svo um að á brennu fari ekki óæskilegur eldsmatur á borð við sorp, plast- og gummíefni (s.s. plastkassar, fiskkör, netaafskurður, bíldekk og þess háttar), gagnvarið efni, dósir og tunnur með fljótandi eða föstum efnum (s.s. lím- og málningarafgöngum) eða annað sem getur valdið hættulegum sprengingum. Því þarf að vakta brennustæði eða að takmarka aðgengi að svæðinu.
Sjá skal um að brennustæði sé hreinsað sem fyrst að brennu lokinni og ösku og öðrum úrgangsefnum verði fargað í samráði við áhaldahús bæjarins.Tryggja skal að ekki sé hætta á foki frá brennustæði, hvorki fyrir né eftir brennu.
Ljóst er að mengun sem fylgir brennuhaldi hefur minnkað verulega, en mest er nú brennt af timbri, samt sem áður stafar ákveðin umhverfishætta af brennum. Umhverfisstofnun hefur kannað málið og hér til fróðleiks eru niðurstöður könnunar Umhverfisstofnunar á dioxín mengun frá áramóta- og þrettándagleðis brennum hérlendis. Fram kemur að brennur leggja til um 46% dioxín mengunar á Íslandi og það að mestu á tveim dögum; gamlársdag og þrettánda degi jóla!
Umhverfisstofnun reiknar reglulega út heildarlosun ýmissa mengandi efna yfir árið. Þar á meðal er reiknuð út losun dioxíns. Mat á heildarlosun dioxíns fyrir árið 2008 gaf til kynna að áramóta og þrettándabrennur væru að losa 46% alls þess díoxíns sem losað er á landinu öllu. Öll stóriðjan, sjávarútvegur, sorpbrennslur, orkuiðnaður og samgöngur séu samanlagt með 54%. Þessa skiptinu má sjá í meðfylgjandi mynd. Rétt er að taka fram að þótt eingöngu sé brennt hreint timbur getur dioxínmyndum samt verið til staðar. Timbur sem stendur úti nálægt sjó hefur fengið á sig nógu mikið af klór til að dioxín myndist við bruna þess. Hins vegar hafa má færa fyrir því rök að hugsanlega sé um að ræða ofmat á því magni þess timburs sem brennt er í áramóta og þrettándabrennum.
Æskilegt er að sem nákvæmastar tölur liggi fyrir um losun allra mengandi efna. Til að fá sem nákvæmastar upplýsingar um magn þess timburs sem brennt er á áramóta og þrettándabrennum munu Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vigta og mæla stærð einnar brennu. Brennan á Geirsnefi í Reykjavík stendur nálægt bílavog og verður hver bíll vigtaður fyrir og eftir losun á brennuna. Einnig verður þvermál og hæð brennunnar mælt eftir því sem hún hleðst upp og jafnframt verða teknar ljósmyndir. Það ætti því að fást gott mat á þyngd brennunnar á mismunandi upphleðslustigum hennar.
En til að fá sem besta mynd af heildarmagni þess efnis sem brennt er á landinu öll er æskilegt að fá upplýsingar um stærð allra brenna á landinu. Umhverfisstofnun hefur óskað eftir samvinnu við öll heilbrigðiseftirlitssvæði landsins til að geta metið, sem best hverja brennu með eftirfarandi upplýsingum.
1. Þvermál
2. Hæð
3. Ljósmynd af brennunni með einhverjum mælikvarða inn á t.d. manneskju.
Þvermálsmæling þarf ekki að vera hárnákvæm og hæð er í lagi að meta ef erfitt er að koma við beinni mælingu. Varðandi ljósmyndir væri best að hver myndaskrá væri skírð lýsandi nafni þar sem fram kemur staður og hvort um er að ræða áramóta eða þrettándabrennu.
Sem dæmi um lýsandi skrárnafn væri t.d. „Reyðarfjörður_brenna_við_fótboltavöll_þrettándinn.jpg“
Í þéttbýlinu skoða heilbrigðisfulltrúar venjulega hverja einustu brennu en á minni svæðum úti á landi er erfiðara að koma því við en í staðin gætu heilbrigðsfulltrúar safnað saman þessum upplýsingum frá ábyrgðarmönnum hverrar brennu.
Ljósmynd: Brenna, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Grafík: Mat á heildarlosun dioxíns árið 2008. Umhverfisstofnun.
Birt:
Tilvitnun:
Birgir Þórðarson „Áramótabrennur - tímaskekkja eða nauðsyn?“, Náttúran.is: 27. desember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/12/27/aramotabrennur-timaskekkja-eda-naudsyn/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.