Lærðu að þekkja plönturnar
Lærðu að þekkja plönturnar, íslenskt nafn, latneskt nafn, blómskipun, lauf, vaxtarlag, vaxtarstað og blómgunartíma. Aðeins ef þú þekkir jurt verðurðu þess umkomin að finna hana út í náttúrunni, eða gróðrarstöðinni, og veist hvort þig langar að hafa hana í garðinum.
Þetta er auðveldasti hluti garðyrkjunnar, eins konar „hægindastólsgarðyrkja“. Allar skyndamlegar ákvarðanir sem þú tekur um nánasta umhverfi þitt verða að byggjast á upplýsingum.
Þegar þú finnur plöntu sem þér líst á, skoðarðu skilyrðin sem hún vex við eins og jarðveg, félagsskapinn (aðrar plöntur) sem hún vex í og hvort hún vex í skugga, mót sól, í raka eða þurrki og þú athugar hvenær hún þroskar fræ.
Svo ferðu aftur á staðinn áður en fræfall hefst og þiggur frægjöf frá plöntunni. Mundu eftir að þakka fyrir þig. Þú hefur með þér skóflu og plastpoka og tekur smá jarðveg svo þú getir boðið henni sömu skilyrði heima hjá þér. Að sjálfsögðu gengurðu vel um og skilur ekki eftir sár sem getur stækkað og orðið upphafið að meiriháttar uppblæstri.
Þegar heim er komið sáirðu fræjunum strax því sumar plöntur hafa innbyggða loka í genunum og þurfa bæði frost og þíðu til þess að spíra. Reyndar eru sumar svo magnaðar að þær þurfa tvo vetur eða fleiri áður en þær kíkja upp úr moldinni. Þetta er hægt að fara í kring um með því að setja þær í frysti í nokkra mánuði, láta þær svo þiðna í nokkrar vikur og frysta þær svo aftur. Þá hefurðu platað fræið og ættir að fá lítinn grænan sprota upp úr pottinum.
Ef þú ætlar að flytja lifandi plöntu úr náttúrunni í garðinn þinn þá skaltu taka eins stóran hnaus með henni og þú getur og slatta af aukajarðvegi í poka. Þú verður að athuga að rótarkerfið má ekki verða fyrir miklu hnjaski og í raun og veru er alltaf betra að taka fræ heldur en lifandi plöntur. Auk þess eru nokkrar plöntur sjaldgæfar og friðaðar.
Úr Villigarðinum eftir Þorstein Úlfar Björnsson.
Ljósmynd: Tágamura á Snæfellsnesi, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „Lærðu að þekkja plönturnar“, Náttúran.is: 23. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2009/07/02/laerou-ao-thekkja-plonturnar/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. júlí 2009
breytt: 23. mars 2014