Sólin um vetrarsólstöður. Ljósm. Einar Bergmundur.Eins og nafnið bendir til þá eiga vetrarsólstöður sér andsvar í sumarsólstöðum. Þessar hátiðir hafa reyndar notið minni virðingar í seinni tíð borgarmenningar þar sem tengslin við náttúruna hafa minnkað. En þeir sem lifa í tenglsum við náttúruna eru mjög meðvitaðir um þessa póla á hringferli ársins. Við hér á Íslandi erum líka nákomin þeim þar sem þeir tákna hámark skammdegisins og hinn nóttlausa dag sumarsins.

Um 20. til 23. desember er sól lægst á lofti á norðurhveli jarðar og um 20. til 23. júni rís hún svo hæst og gengur ekki til viðar í norðlægari löndum. Þessu er svo öfugt farið hjá andfætlingum okkar sunnan miðbaugs. En við miðbaug gætir áhrifa þessarar sveiflu minnst. Þar er nokkurnveginn jafndægur árið um kring. Og það er einmitt jafndægur á vori og haust sem marka miðbil á milli sólstaðanna. Þannig skiptist árið í fjóra jafna hluta. Iðulega táknaðir með kross inni í hring sem markar fjórar sneiðar með 90° horni.

Í nótt eru vetrarsólstöður og marka þær hinn skemmsta dag. Í Almanaki Háskóla Íslands segir að sólstöður séu nú nákvæmlega kl. 04:48 þ. 22. desember 2014. Síðan tekur daginn að lengja eitt hænufet á dag. Svo lengist dagurinn þar til jafnvægi er náð á vorjafndægri og áfram þar til sól er á lofti allan sólarhringinn hér í landi sumarnáttanna. Það heita þá sumarsólstöður.

Á sumarsólstöðum segir Biblían að Jóhannes skírari hafi fæðst, réttu hálfu ári á undan frænda sínum Jesús Maríusyni. En fæðingu hans höldum við heilaga þann 24. desember. Þarna skeikar nokkrum dögum sem eru til komnir af skekkjum í tímatali okkar. Þeir frændur eiga sér líka djúpa skírskotun í helgisögnum eldri trúarbragða og hafa menn gengið svo langt að segja að þeir séu, ef ekki algerar mþtur þá að minnsta kosti mjög aðlagaðir þeim stereótþpisku táknum sem þeir líkjast. Hátíð ljóssins er að sjálfsögðu fögnuður yfir því að sólin tekur að rísa hærra og hærra með hverjum degi úr hyldýpi myrkursins. Ljósið sigrar myrkrið enn einn ganginn og við getum horft til þess að heimurinn lifir áfram.

Þannig hafa forfeður okkar litið þessi tímamót frá upphafi hugsunar og markvissra rannsókna. Í öllum löndum má finna sólúr og byggingar sem taka mið af þessum dögum og stöðu sólar, tungls og stjarna. Á Bretlandseyjum eru Stonehenge frægust og svo Pýramídar Egyptalands. Eins má í suður Ameríku finna byggingar og tákn sem notuð voru við rannsóknir á þessu ferli sólarinnar og annarra himintungla. Sama er að segja um Afriku og Asíu. Jafnvel í hinni einangruðu Ástralíu voru frumbyggjar mjög meðvitaðir um þessa markdaga ársins.

Víða voru tíðkaðar fórnarathafnir í tengslum við þessar hátíðir í norrænum sið og keltneskum voru færðar fórnir sem áttu að tryggja afkomu ættarinnar á komandi ári. Þar var oft um einstakling að ræða sem valinn var til þess að deyja og taka að sér konugstign á himnum. Var það oftar en ekki talin mikil sæmd. Það er ekki erfitt að finna slíkar minjar í menningu okkar s.s. Jónsmessubál á norðurlöndum og ljósin okkar á jólatrjám og húsum í seinni tíð. Að ógleymdum áramótabrennum og flugeldaflóði gamlárskvölds. Allt eru þetta umbreyttar fórnarathafnir sem við höfum haldið í gegnum siðskipti og breytingar á trúarbrögðum. Fæst okkar mundu vilja sleppa þessum siðum.

Hver veit hvort sólin sigraðist á myrkrinu ef við legðum ekki okkar að mörkum?


    Tengdir viðburðir

  • Vetrarsólstöður

    Staðsetning
    Óstaðsett
    Hefst
    Þriðjudagur 22. desember 2015 04:48
    Lýkur
    Þriðjudagur 22. desember 2015 04:49
Birt:
21. desember 2015
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Vetrarsólstöður“, Náttúran.is: 21. desember 2015 URL: http://nature.is/d/2011/12/20/vetrarsolstodur/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. desember 2011
breytt: 21. desember 2015

Skilaboð: