Afþreying er fullorðinsorð yfir það sem börn myndu kalla leik eða skemmtun. Oft heldur fullorðið fólk að það þurfi stöðugt að hafa ofan af fyrir börnum, þ.e. finna þeim eitthvað til að hafa fyrir stafni. Barnið venst fljótt á það að allt eigi að vera skemmtilegt og lærir aldrei að fást við leiðann. Ef börnum er alltaf fundið eitthvað til að gera venjast þau fljótt við það að láta aðra eða annað skemmta sér. Það eina sem að barni getur þótt leiðinlegt er að finna sér ekkert til að gera. Það er því alls ekki vont að því leiðist af og til.

Eitt af því sem gert er til að hafa ofan af fyrir litlu skinnunum er að láta þau horfa á sjónvarp eða kvikmyndir í tíma og ótíma. En allt er gott í hófi. Barn sem horfir of mikið á sjónvarp eða er of mikið í tölvuleikjum hættir að vera virkt í líkama sínum. Börn á forskólaaldri hafa í raun ekkert gott af sjónvarpsglápi, það getur hreinlega heft þroska þeirra. Best er að finna einhvern meðalveg þannig að barnið verði ekki svift öllu sem tengist samfélaginu, fái t.d. að sjá barnaefni og myndir í hófi sem henta þeirra aldri en að öðru leiti ekki leyfður frjáls aðgangur að óvirkri afþreyingu eins og sjónvarpi.

Útileikir og næg hreyfing er það sem börn þurfa mest á að halda til að þroskast. Sendið barnið út með flugdreka, eða út á leikvöll, það er hvort eð er miklu skemmtilegra.

Birt:
15. desember 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Afþreying“, Náttúran.is: 15. desember 2011 URL: http://nature.is/d/2007/06/25/afreying/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. júní 2007
breytt: 21. maí 2014

Skilaboð: