Grændalur opnaður fyrir rannsóknum á jarðhita, grunnvatni, yfirborðsvatni og efnisnámum
Á vef Orkustofnunar`* kemur fram að stofnunin hafi veitt Sunnlenskri orku leyfi til rannsókna á jarðhita, grunnvatni, yfirborðsvatni og efnisnámum við Grændal í Ölfusi. Með „við“ er að sjálfsögðu átt við „í“ Grændal. Þetta þýðir með öðrum orðum að Grændalur skuli vera lagður undir jarðboranir, vegagerð og annað jarðrask sem mun án efa gerbreyta hinum ónsortna Grændal með óafturkræfum hætti. Þó ekki sé um nýtingarleyfi að ræða í bili er ætlunin að sjálfsögðu sú að nýta orku og efni á svæðinu enda fyrirfram vitað að þar er stutt á nýtanlegan jarðhita. Rannsóknarleyfið gildir til 31. desember 2018 sem leyfir Sunnlenskri orku að vaða rannsakandi um svæðið í 7 ár.
Leyfið er veitt þrátt fyrir ósnortna fegurð dalsins og það að Rammaáætlun er ekki tilbúin, og þrátt fyrir að mat á umhverfisáhrifum fyrir svæðið hafi verið hafnað af Skipulagsstofnun árið 2001. Sunnlensk orka kærði þá úrskurðinn og þáverandi umhverfisráðherra Sifjar Friðleifsdóttur sem felldi hann úr gilidi og féllst á borun rannsóknarholu í mynni dalsins með því skillyrði að ekki yrði gerður vegur inn dalinn heldur komið að dalsmynninu að norðan, frá línuvegi Búrfellslínu. Síðan hafa nokkrar tilraunir verið gerðar til að fara inn á svæðið en ætíð verið vísað frá, ýmist af iðnaðarráðherra eða sveitastjórn Ölfuss, að ekki sé minnst á andstöðu bæjarstjórnar Hveragerðis en Grændalur liggur rétt fyrir ofan Hveragerðisbæ.
*Orkustofnun veitti í dag, þann 10. maí 2011, Sunnlenskri orku leyfi til rannsókna á jarðhita, grunnvatni, yfirborðsvatni og efnisnámum við Grændal í Ölfusi. Við undirbúning leyfisveitingarinnar var leitað umsagnar umhverfisráðuneytis, sem leitaði umsagnar Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar. Þá var leitað umsagnar hjá sveitarfélögunum Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi. Umsagnar var einnig leitað hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Leyfið felur í sér heimild til rannsókna á jarðhita, grunnvatni, yfirborðsvatni og efnisnámum á rannsóknarsvæðinu sem og almennra umhverfisrannsókna sem nauðsynlegar eru til að kanna áhrif hugsanlegrar nýtingar á umræddar auðlindir, í samræmi við rannsóknaráætlun leyfishafa.
Leyfið gildir frá 10. maí 2011 til 31. desember 2018.
Leyfið felur ekki í sér heimild til nýtingar á jarðrænum auðlindum á rannsóknarsvæðinu. Komi til nýtingar þarf leyfishafi að sækja um sérstakt virkjunarleyfi og/eða nýtingarleyfi og ná samkomulagi við umráðahafa réttinda á svæðinu um endurgjald fyrir auðlindina eða afla sér eignarnámsheimildar.
Ljósmynd: Úr Grændal af ferlir.is.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Grændalur opnaður fyrir rannsóknum á jarðhita, grunnvatni, yfirborðsvatni og efnisnámum “, Náttúran.is: 1. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/01/graendalur-opnadur-fyrir-rannsoknum-jardhita-grunn/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. desember 2011