200 skólar þátttakendur í Grænfánaverkefninu
Samningur Landverndar, umhverfisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um rekstur Grænfánaverkefnisins var undirritaður í dag. Samningurinn var undirritaður í Kvennaskólanum í Reykjavík, en hann er 200. skólinn sem hefur þátttöku í verkefninu hér á landi.
Með undirritun samningsins er rekstur Grænfánaverkefnis Landverndar tryggður til þriggja ára. Það voru Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra sem undirrituðu samninginn.
Grænfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem nýtur virðingar sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum, enda er grænfáninn stærsta umhverfismenntaverkefni í skólum, jafnt hér á landi sem í heiminum öllum. Nú eru ríflega 38 þúsund skólar í 50 löndum þátttakendur í verkefninu.
Umhverfisverndarsamtökin Landvernd er umsjónaraðili Grænfánans hér á landi og það var árið 2002 sem fyrsti grænfáninn var dreginn að húni við íslenskan skóla. Nú tæpum áratug síðar eru skólar á grænni grein, það er þeir skólar sem fengið hafa grænfánann og þeir sem hafa sett sér það sem markmið, orðnir 200 talsins á öllum skólastigum eða tæplega helmingur allra skóla í landinu.
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „200 skólar þátttakendur í Grænfánaverkefninu“, Náttúran.is: 1. desember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/12/01/200-skolar-thatttakendur-i-graenfanaverkefninu/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. janúar 2012