Skólar á grænni grein eflast
Skólum á grænni grein vex fiskur um hrygg á fullveldisdaginn, 1. desember. Þá verður undirritaður þriggja ára styrktarsamningur milli umhverfisráðuneytisins, mennta- menningarmálaráðuneytisins og Landverndar, sem stýrir verkefninu en það er einnig þekkt sem Grænfánaverkefnið.
Samningurinn verður undirritaður í Kvennaskólanum í Reykjavík, sem er 200. skólinn á Íslandi sem hóf þátttöku í verkefninu. Til gamans má geta að 100. skólinn sem skráði sig til leiks var grunnskóli, Ingunnarskóli í Reykjavík og 100. skólinn til að hljóta Grænfánann var leikskóli, Skýjaborg í Hvalfjarðarsveit. Að auki taka þrír af sjö háskólum þátt í verkefninu svo það nær nú til allra skólastiga á Íslandi.
Skólum á grænni grein (Eco-Schools) er alþjóðlegt verkefni sem Landvernd hefur rekið hér á landi í 10 ár. Þátttökuskólar miða að því að geta flaggað alþjóðlegu viðurkenningunni Grænfánanum sem veitt er fyrir umhverfisstarf og stefnu skólans í umhverfismálum. Þurfa skólarnir að hafa stigið sjö skilgreind skref í umhverfismálum til að geta sótt um Grænfánann sem er alla jafna veittur til tveggja ára í senn. Sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.
Samningsaðilar hafa stefnt að undirritun slíks samnings um nokkurt skeið en þess má geta að langtímasamningur við Grænfánaverkefnið er meðal tillagna í þingsályktunartillögu um eflingu græns hagkerfis á Íslandi sem nú liggur fyrir Alþingi.
Hátíðarhöld hjá krökkum á Álftanesi
Fyrr um morguninn mun umhverfisráðherra afhenda tveimur skólum á Álftanesi Grænfána, annars vegar Náttúruleikskólanum Krakkakoti sem dregur Grænfánann að húni í þriðja sinn og hins vegar Álftanesskóla sem fær hann afhentan í fjórða sinn á morgun. Því munu um 550 krakkar á Álftanesi hafa sérstaka ástæðu til að fagna árangri sínum í umhverfismálum á fullveldisdegi Íslendinga og verða skólarnir tveir með sameiginlega hátíðardagskrá af því tilefni.
Undirritunin fer sem fyrr segir fram í Kvennaskólanum í Reykjavík og hefst stutt athöfn vegna hennar kl. 11:45. Þar verða viðstaddir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, ásamt fulltrúum umhverfisnefndar Kvennaskólans. Fjölmiðlar eru hjartanlega velkomnir.
Nánari upplýsingar veitir Orri Páll Jóhannsson, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein, gsm. 845 6774.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Skólar á grænni grein eflast“, Náttúran.is: 30. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/30/skolar-graenni-grein-eflast/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.