Þjóðarfuglinn fálkinn
Fálkinn [Falco rusticolus] er ótvíræður þjóðarfugl Íslendinga. Hann var um tíma í skjaldarmerki þjóðarinnar og við hann er kennd fálkaorðan. Ólafur K. Nielsen hefur í tæpan aldarfjórðung stundað rannsóknir á fálkum á Íslandi.
Fálkinn hefur löngum verið Íslendingum hugleikinn og ræður þar bæði sagan sem og útlit og lífshættir þessa tígulega fugls. Öldum saman voru fálkar fangaðir hér á landi og fluttir til Evrópu þar sem þeir voru tamdir til veiðileikja. Sem dæmi um umfang þessarar veiða má nefna að á tímabilinu 1731-1793 voru fluttir úr landi tæplega 5000 fálkar eða að meðaltali um 80 fuglar á ári (mest 211 og minnst 15 fuglar). Mikil saga er til um nytjar og fálkaveiðin var svo mikilvæg að Danakonungur sló eign sinni á fuglinn. Þessum merka kafla í sögu landsins lauk nokkuð snögglega í Napóleonsstríðinu 1805 en áhugi hefðarmanna á veiðileikjum með fálkum hafði þá smám saman dalað.
Við upphaf Heimastjórnar (1904) var fálkinn settur í skjaldarmerki Íslands en skipt út árið 1919 fyrir hið kauðska landvættarmerki. Æðsta orða ríkisins Fálkaorðan, er kennd við fálkann. Hann er því sjálfkjörinn þjóðarfugl Íslendinga.
Fálkinn er stærsta tegundin innan fálkaættarinnar [Falconidae]. Hann er jafnframt eina fálkategundin sem byggir lönd norðurhjarans árið um kring. Fullorðinn kvenfálki vegur 1,5-1,8 kg en karlfugl 1,2-1,4 kg. Mikill einstaklingsmunur er á lit fálka eða allt frá nær alhvítum fuglum yfir í nær aldökka. Íslenskir fálkar eru gráleitir (steingráir) í fullorðinsbúningi, karlfuglar yfirleitt ljósari en kvenfuglar. Ungfuglar eru brúngráir. Annnað aldurseinkenni er litur á fótum, vaxhúð við goggrót og augnbörmum, þessi húð er gul á fullorðnum fuglum (skærgul á karlfuglum og daufari á kvenfuglum) en blágrá á ungfuglum. Fálkinn er hraðfleygur og hremmir bráð oftast á lofti en einnig á landi og vatnsborði.
Fálkinn verður kyný roska 2-4 ára gamall. Fálkar helga sér varpóðul og á Íslandi dvelja óðalsfálkar á óðalinu árið um kring. Óðalið er í raun og veru aðeins hreiðurkletturinn en veiðilöndin eru sameiginleg, enda sækja þeir langt til fanga. Fálkaóðul eru hefðbundin og notuð ár eftir ár, kynslóð eftir kynslóð. Þegar fákum fækkar fara sum óðul í eyði, en er stofninn vex eru þau setin á ný . Sum þessara óðala hér á landi hafa örugglega verið notuðu af fálkum í aldir eða árþúsundir, sum hugsanlega allt frá lokum ísaldar fyrir 10 þúsund árum síðan. Sem dæmi um trygglindi þessara fugla þá hafa aldursgreiningar á skít og leifum sýnt að sömu hreiðursskútarnir á Norðvestur-Grænlandi hafa verið í notkun í 1-2000 ár a.m.k. Þessi langa ábúðarsaga hefur áhrif á vöxt plantna og flétta í hreiðurklettinum og það má því oft þekkja þessa staði á löngu færi.
Fæða fálkans á Íslandi eru fuglar og hann veiðir allt frá þúfutittlingum sem vega um 20 g upp í fullorðnar grágæsir sem vega 3-4 kg (um 200-faldur munur á þyngd bráðar). Víða erlendis veiða fálkar spendýr og þá einkum læmingja, jarðíkorna og snæhéra. Hér á landi er hagamúsin eina spendýrið sem fálkinn veiðir í einhverjum mæli. Aðalfæða fálkans á Íslandi árið um kring er þó rjúpan og tekur hann vart aðra bráð ef einhverja rjúpu er að hafa. Þetta nána samband fálkans við rjúpuna hefur verið lanslþð ljóst um aldir og til eru þjóðsögur um tengsl þessara hálfsystkina og hvers vegna rjúpan þarf að búa við það hlutskipti að vera hundelt af bróður sínum alla eilífð. Víðast hvar annars staðar, bæði vestan hafs og austan, eru rjúpur og þá bæði dalrjúpur og fjallarjúpur, uppistaða fæðu fálka.
Stærð íslenska rjúpnastofnsins breytist reglulega þannig að hann hnígur og rís og líða um 10 ár á milli hámarksára. Munur á fjölda rjúpna í hámarks- og lágmarksárum getur verið á bilinu 3-10 faldur. Þessar stofnsveiflur eru náttúrulegt fyrirbæri og rjúpnaveiðar okkar mannanna hafa ekkert með þær að gera. Hugsanlega er afrán fálkans á rjúpunni ein af skýringunum á stofnsveiflunni og eitt af því sem bendir til þess er að fálkastofninn sveiflast í takt við rjúpnastofninn en hnikað þannig að mest er um fálka 2-4 árum eftir að mest er um rjúpur.
Íslenska rjúpnastofninum hefur hnignað: stóru hámarksárin sem einkenndu fyrri hluta 20. aldarinnar hafa ekki komið í hálfa öld eða síðan 1955. Þessi fækkun hefur haldið áfram og nam á Norðausturlandi um 4% á ári frá 1981. Af þessum sökum hefur rjúpan verið sett á válista sem tegund í yfirvofandi hættu. Þetta er alvarlegt mál og nægir þar að vísa til stöðu rjúpunnar í íslensku vistkerfi og eins þeirra miklu nytja sem við mennirnir höfum af henni. Ástæður þessarar bágu stöðu rjúpnastofnsins eru ekki ljósar en talið liklegt að skotveiði væri einn af þeim þáttum sem hefðu átt þar hlut að máli. Jafnframt var takmörkun veiða nokkuð sem menn hafa í hendi sér og árangur af friðunaraðgerðum ætti að koma fljótlega í ljós. Því ákvað umhverfisráðherra að rjúpan skildi friðuð til þriggja ára frá haustinu 2003 en nú eru líkur á að þessi friðun verði stytt í tvö ár.
Ljóst er að fálkinn er algjörlega háður rjúpunni og reyndar verpa fálkar hvergi hér í heimi nema þar sem rjúpur er að finna. Íslenski fálkastofninn er lítill, áætlaður 300-400 varppör, og er fálkinn á válista sem tegund í yfirvofandi hættu. Athuganir sýna að fálkastofninum hefur hnignað verulega, bæði á Vesturlandi og Suðurlandi. Hugsanlega er þessi hnignun afleiðing af þeirri rjúpnaördeyðu sem einkennt hefur þessa landshluta um skeið. Tvær meginforsendur eru fyrir því að lífvænlegur fálkastofn haldist í landinu, annars vegar að rjúpnastofninn rétti úr kútnum og helst að hann komist til fyrra horfs og hins vegar að tryggja að varpóðulum fálkans verði ekki spillt.
Grein þessi birtist í tímariti Fuglanverndar „Fuglar“ nr.2 í apríl 2005.
Myndin er af gamla skjaldarmerki Íslands frá heimasttjórnarárunum.
Birt:
Tilvitnun:
Ólafur Karl Nielsen „Þjóðarfuglinn fálkinn “, Náttúran.is: 16. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/16/jarfuglinn-flkinn/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. nóvember 2011