Umræður um hvernig brauðfæða skuli heiminn snúast oft um samanburð á ræktunaraðferðum og hver þeirra muni helst auka uppskeru. En við þurfum að meta þetta á heildrænni hátt. Framleiðsla næringarríkrar fæðu með aðferðum sem vernda vistkerfi eru ekki síður mikilvægir þættir sjálfbærrar fæðuframleiðslu en uppskerumagn. Frjósemi jarðvegs er grundvöllur lífrænna aðferða. Heilbrigður jarðvegur eykur ekki aðeins uppskeru og verndar umhverfið heldur fóstrar hann líka jarðvegsörverur sem flytja matjurtum næringarefni á borð við vítamín og steinefni sem nauðsynleg eru heilsu manna og dýra. Rodale stofnunin í Bandaríkjunum hefur nýverið birt niðurstöður 30 ára ræktunartilrauna sem báru saman lífrænar og hefðbundnar ræktunaraðferðir. Lífrænar aðferðir reyndust jafnast á við eða gera betur en hefðbundnar aðferðir í öllum þeim þáttum sem kannaðir voru.

Uppskera svipuð eða betri í lífræna kerfinu
Uppskera á maís og sojabaunum var sambærileg í báðum kerfum þegar jarðvinnsla var notuð og uppskera á hveiti var einnig svipuð. Maís og sojabaunir þoldu samkeppni “illgresis” mun betur í lífræna kerfinu en hinu hefðbundna, þótt uppskera væri svipuð. Þá var maísuppskera rúmlega 30% meiri í lífræna kerfinu en hinu hefðbundna á þurrkatímabilum.

Lífrænar aðferðir eru sjálfbærari og hagkvæmari
Hefðbundinn landbúnaður notar tilbúinn áburð til að auðga jarðveg köfnunarefni og eiturefni til að halda í skefjum illgresi, skordýrum og sveppum. Þessi efni eyða jarðvegsörverum, ræna matjurtir næringargildi sínu og menga vatn og loft. Í lífrænni ræktun er tilbúinn áburður bannaður og náttúruleg varnarefni má aðeins nota ef brýnar ástæður eru til. Lífrænn landbúnaður bætir jarðvegsgæði með skiptiræktun, náttúrulegum áburði og ræktun plantna sem binda köfnunarefni úr lofti með örverum.

Lífrænn landbúnaður notar 45% minni orku og nýtir hana auk þess betur. Framleiðni reyndist 28% meiri í lífræna kerfinu. Þótt því sé haldið fram að plönturæktun sem útheimtir jarðvinnslu krefjist meiri orkunotkunar sýndi rannsóknin að hefðbundin jarðvinnslukerfi eru orkufrekust.

Fram kom að hefðbundin ræktunarkerfi losa 40% meira af gróðurhúsalofttegundum en lífræn kerfi á hverja þyngdareiningu uppskeru. Lífrænar aðferðir binda meira kolefni í jarðvegi en hefðbundnar og vinna þannig gegn loftslagsbreytingum. Á fyrri árum rannsóknarinnar komst Rodale stofnunin að 75% samdráttar í kolefnislosun sem Kyoto sáttmálinn ætlaði Bandaríkjunum mætti ná með því að taka upp lífrænar aðferðir á þeim 160 milljónum ekra sem nú eru notaðar til ræktunar á soja og maís.

Rannsókn Rodale sýndi að ágóði af lífrænum kerfum er næstum þrefaldur, eða 558 dollarar á hverja ekru á ári, miðað við ágóða af hefðbundum kerfum sem reyndist 190 dollarar á ekru á ári. Og jafnvel án verðálagningar reyndust lífrænu kerfin samkeppnishæf við hefðbundnu kerfin m.a. af því að bændur í lífrænni ræktun þurfa ekki að kaupa tilbúinn áburð og eiturefni.

Skýrslur SÞ telja lífrænar aðferðir geta brauðfætt heiminn
Árið 2007 gaf Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) út skýrsluna “Lífrænn landbúnaður og fæðuöryggi”. Einn af embættismönnum FAO dró saman niðurstöðu hennar með þeim orðum að “lífrænn landbúnaður er heildrænt framleiðslukerfi sem sneiðir hjá tilbúnum áburði og eiturefnum og erfðabreyttum lífverum, lágmarkar mengun lofts, jarðvegs og vatns, og hámarkar heilbrigði plantna, dýra og manna”.

Í skýrslu IAASTD  sem út kom 2008 var mælt með því að lífrænar aðferðir væru notaðar til framleiðslu landbúnaðarafurða framtíðarinnar. Skýrslan byggði á tilstyrk fimm stofnana Sameinuðu þjóðanna og ráðgjöf rúmlega 400 vísindamanna í yfir 80 þjóðlöndum varðandi framtíðar landbúnað heimsins.

Lífræn framtíð Íslands
Árangur lífræns landbúnaðar byggist á því að hann viðurkenni margbreytileika náttúrunnar og reyni að vinna með henni. Hefðbundinn landbúnaður tugtar náttúruna til með tilbúnum efnum – aðferðum sem mengað hafa umhverfið og fæðukeðjuna og gert bændur unnvörpum háða þjóðlausum efnaframleiðslufyrirtækjum.

Viðurkenning og stuðningur er það sem helst hindrar að lífrænn landbúnaður sjái heiminum fyrir nægu framboði á heilnæmu fæði. Með því að taka upp lífrænan landbúnað er líklegt að tryggja megi framtíð íslensks landbúnaðar og veita byggðaþróun langþráðan stuðning. Íslenskir háskólar þurfa að auka rannsóknir til að byggja upp þekkingu á lífrænum aðferðum við íslenskar aðstæður. Og stjórnmálamenn okkar þurfa að stórauka fjárframlög til uppbyggingar á lífrænum landbúnaði. Með því væri fæðuöryggi þjóðarinnar stórlega aukið að magni og heilnæmi.


Niðurstöður samanburðarrannsókna Rodale stofnunarinnar á lífrænni og hefðbundinni ræktun: Árleg uppskera (yields),  ágóði (profit), orkuneysla (energy input) og losun gróðurhúsalofttegunda (greenhouse gases) á flatareiningu.
Heimild: Rodale Institute, The Farming Systems Trial (www.rodaleinstitute.org).

International Assessment of Agriculture Science and Technology for Development.

Höfundur Sandra B. Jónsdóttir er sjálfstæður ráðgjafi.

Birt:
10. nóvember 2011
Tilvitnun:
Sandra B. Jónsdóttir „Lífrænn landbúnaður getur brauðfætt heiminn“, Náttúran.is: 10. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/27/lifraenn-landbunadur-getur-braudfaett-heiminn/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 27. nóvember 2011
breytt: 30. nóvember 2011

Skilaboð: