Hættuleg efni í flugeldum
Við mælingar á efnainnihaldi flugelda á vegum yfirvalda í Danmörku kom í ljós að hluti þeirra innihaldi þrávirka efnið hexaklórbensen sem hefur um langt skeið verið bannað vegna þeirra alvarlegu áhrifa sem það hefur á umhverfið og heilsu manna. Hér á landi hefur hexaklórbensen mælst í andrúmsloftinu um ármót í margfalt hærri styrk en eðlilegt þykir og og er skýringuna vafalaust sú að hluti flugelda og skotterta sem eru á markaði hér innihalda hexaklórbensen, þrátt fyrir bannið.
Mörg önnur heilsuskaðleg efni geta verið í flugeldum eða sem geta myndast eftir að kveikt er í þeim. Það er á ábyrgð innflytjenda að tryggja að flugeldar innihaldi ekki efni sem eru bönnuð.
Umhverfisstofnun tekur nú þátt í samevrópsku verkefni sem miðar að því að fyrirbyggja þessa notkun í framtíðinni þannig að hægt verði að njóta ljósadýrðarinnar á nýársnótt án þess að hafa of miklar áhyggjur af mengun af völdum skaðlegra efna.
Umhverfisstofnun ráðleggur fólki að spyrja söluaðila hvort flugeldarnir uppfylli kröfur um efnainnihald. Ef allir spyrja, hefur það áhrif!
Hexaklórbensen er þrávirkt efni sem safnast upp í umhverfinu og í lífverum. Það brotnar niður á afar löngum tíma og getur í millitíðinni borist langar leiðir í lofti, vötnum eða sjó og hefur efnið mælst í umhverfinu fjarri mögulegum uppsprettum. Hexaklórbensen er talið geta valdið alvarlegum heilsuskaða eins og krabbameini og skaðað starfsemi lifrar og nýrna svo eitthvað sé nefnt. Hexaklórbensen var áður fyrr notað sem skordýraeitur og í ýmis konar iðnaði en öll notkun þess hefur nú verið bönnuð með alþjóðlegum aðgerðum á borð Stokkhólmssamningi um bann við framleiðslu, notkun og losun þrávirkra lífrænna efna.
Nánar um hexaklórbenson og þrávirk lífræn efni:
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hættuleg efni í flugeldum“, Náttúran.is: 28. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2010/12/29/haettuleg-efni-i-flugeldum/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. desember 2010
breytt: 30. desember 2014