Náttúrubarnið Anna Birna Ragnarsdóttir
Við hvað starfar þú Anna Birna eða hvert er viðfangsefni þitt:
Ég er hómópati og rek fyrirtækið htveir hómópatíubækur ehf með Guðnýju Ósk Diðriksdóttur. Á því rúma ári sem við erum búnar að starfrækja htveir höfum við skrifað og gefið út tvær bækur, „Meðganga og fæðing með hómópatíu“, sem kom út fyrir síðustu jól og „Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu“ sem var að koma út núna. Auk þess höldum við úti vefsíðu, www.htveir.is, þar sem við erum búnar að skrifa 67 greinar, um hómópatíu og heilsutengd málefni. Allt sem við höfum gert gerum við sjálfar án styrkja, hvort sem um er að ræða skriftir, útgáfu, dreifingu, markaðssetningu eða bókhaldi og svo mætti reyndar lengi telja. Það má því segja að þetta sé mikið hugsjónarstarf hjá okkur stöllunum.
Hvaða menntun eða reynslu hefur þú að baki?
Ég er menntuð hómópati frá The College of Practical Homeopathy, í Bretlandi, þetta er 4 ára nám eða um 190 einingar. Frá því að ég hóf nám mitt árið 2000 hefur hómópatían átt hug minn og hjarta, mér er mikið í mun að sem flestir þekki og geti notfært sér þessa aldagömlu náttúrumeðferð.
Hvað lætur þig tikka?
Ég á dásamlegan eiginmann og það er ómetanlegt fyrir okkur að komast í sveitina og vera í tengslum við náttúruna, þannig slaka ég á, endurnærist og næ jarðtenginu. Bækur eru mér líka mjög mikilvægar bæði sem afþreying en líka til að fræðast.
Finnst þér að þú getir haft áhrif í samfélaginu?
Já það finnst mér, bæði með bókunum „Meðganga og fæðing með hómópatíu“ & „Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu“, en einnig með því hvernig ég umgengst börnin mín, fjölskyldu, vini og umhverfið mitt.
Hvaða viðfangsefni finnast þér mikilvægust einmitt núna?
Meðvitund hvers og eins um hvað er mikilvægt í umhverfinu, hvernig viljum við lifa og hvernig viljum við hafa umhverfi okkar nær og fjær.
Ræktar þú eigin jurtir eða nýtirðu þér villtar jurtir?
Já svo sannarlega! Við hjónin er með ræktun í bústaðnum okkar hjá Laugarvatni. Þar er ræktað allskyns grænmeti, kryddjurtir og blóm. Við erum líka með berjarunna og förum auðvitað í berjamó á hverju hausti, þau ber duga okkur yfirleitt fram á vor. Ég hef í gegnum tíðina alltaf átt til vallhumal og blóðberg, en smám saman er að bætast við hinar ýmsu tegundir sem nauðsynlegt er að eiga yfir vetrarmánuðina.
Á hvaða stigi finnst þér náttúruvernd á Íslandi vera í dag?
Skammsýn, mér finnst svolítið vanta upp á framtíðarsýn fyrir komandi kynslóðir.
Hvernig myndir þú vilja sjá vef Náttúrunnar þróast?
Mér finnst vefurinn góður eins og hann er.
Áttu þér uppáhalds málshátt eða lífsspeki?
Komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig. Það á líka við um náttúruna.
Kærar þakkir Anna Birna.
Ljósmyndir: Efsta myndin er af Önnu Birnu, miðmyndin er af bókinni Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, neðsta myndin er af bókinni Meðganga og fæðing með hómópatíu. Ljósm. Höskuldur Harri en hann hannaði einnig báðar bækurnar og er hinn margrómaði eiginmaður Önnu Birnu.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Anna Birna Ragnarsdóttir „Náttúrubarnið Anna Birna Ragnarsdóttir“, Náttúran.is: 16. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/16/natturubarnid-anna-birna-ragnarsdottir/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. nóvember 2011