Hurð
Vistvænar byggingar er hugtak sem enn er ekki alveg komið inn í íslenska tungu. Í raun er átt við að bygging þurfi að vera heilbrigð þ.e. að hún skaði ekki heilsu íbúanna, gangi ekki of nærri auðlindum jarðar og hafi ekki neikvæð áhrif á náttúruna á líftíma sínum og eftir. Það er því margt sem að spilar þar inní en á endanum er það þekking og heilbrigð skynsemi sem ættu að hjálpa okkur að taka ákvarðanir um hvernig við viljum byggja, innan um hvaða efni við treystum okkur og börnum okkar til að eyða bróðurparti lífsins.
Til langs tíma, sérstaklega á 20. öldinni, voru notuð byggingarefni sem í dag flokkast sem hættuleg heilsunni. Dæmi eru geislavirk steypuefni, asbest sem getur valdið lungnakrabba, þéttiefni sem innihélt PCB (polychlorinated biphenyls), þungmálma og viðbótarefni. Nútíma enduruppbygging gengur meðal annars út á það að fjarlægja kerfisbundið þessi hættulegu efni.
Vottanir viðurkenndra aðila eru staðfesting á því að byggingarefnið sé unnið og þess aflað á forsendum sjáfbærrar þróunar. T.d. er vottun frá Forest Stewardship Council (FSC) merki þess að hurð sé örugglega ekki úr regnskógarvið heldur úr sjálfbærum skógum og Svansmerking, Blómið og önnur viðurkennd umhverfismerki gefa til kynna að um umhverfisábyrga framleiðslu er að ræða. Hurð úr PVC væri aftur á móti sannarlega óheilsusamleg og óumhverfisvæn. Um málninguna á hurðinni gildir það sama. Beri hún umhverfisvottun getum við verið örugg annars ekki.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hurð“, Náttúran.is: 27. september 2012 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/hur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 13. júní 2014