Hin gömlu íslensku mánaðaheiti eru þessi:

  1. þorri hefst föstudag í 13. viku vetrar (19. – 26. janúar)
  2. góa hefst sunnudag í 18. viku vetrar (18. – 25. febrúar)
  3. einmánuður hefst þriðjudag í 22. viku vetrar (20. – 26. mars)
  4. harpa hefst sumardaginn fyrsta, fimmtudag í 1. viku sumars (19. – 25. apríl)
  5. skerpla hefst laugardag í 5. viku sumars (19. – 25. maí)
  6. sólmánuður hefst mánudag í 9. viku sumars (18. – 24. júní)
  7. heyannir hefjast á sunnudegi 23. – 30. júlí
  8. tvímánuður hefst þriðjudag í 18. viku sumars (22. – 29. ágúst)
  9. haustmánuður hefst fimmtudag í 23. viku sumars (20. – 26. september)
  10. gormánuður hefst fyrsta vetrardag, laugardag í 1. viku vetrar (21. – 28. október)
  11. ýlir hefst mánudag í 5. viku vetrar (20. – 27. nóvember)
  12. mörsugur hefst miðvikudag í 9. viku vetrar (20. – 27. desember)

Á skífunni hér að ofan sést hvernig gömlu mánaðaheiti skarast við gregoríanska tímatalið sem við notumst við í dag.

Samkvæmt gömlum heimildum voru enn eldri mánaðanöfn, þau er notuð voru til forna enn meira lýsandi fyrir þau verk sem bændur og búaiið unnu á tilteknum tímum og lýsir vel nálægðinni við náttúruna og nauðsyn þess að vinna ákveðin verk á réttum tíma. Fornu mánaðanöfnin eru eftirfarandi:

  1. gaukmánuður/sáðtíð u.þ.b. 12. apríl – 11. maí
  2. eggtíð/stekktíð u.þ.b. 12. maí – 11. júní
  3. sólmánuður/selmánuður u.þ.b. 12. júní – 11. júlí
  4. miðsumar/heyannir u.þ.b. 12. júlí – 11. ágúst
  5. tvímánuður/heyannir u.þ.b. 12. ágúst – 11. september
  6. kornskurðarmánuður/haustmánuður u.þ.b. 12. september – 11. október
  7. górmánuður u.þ.b. 12. október – 11. nóvember
  8. ýlir/frermánuður u.þ.b. 12. nóvember – 11. desember
  9. jólmánuður/mörsugur/hrútmánuður u.þ.b. 12. desember – 11. janúar
  10. þorri u.þ.b. 12. janúar – 11. febrúar
  11. gói u.þ.b. 12. febrúar – 11. mars
  12. einmánuður u.þ.b. 12. mars – 11. apríl

Nákvæm dagsetning er mismunandi eftir árum.

Grafík: Árstíðaskífa, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
2. nóvember 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Gömlu íslensku mánaðaheitin og gregoríanska tímatalið“, Náttúran.is: 2. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2008/04/18/gomlu-manaoarheitin-islenska-og-gregorianska-timat/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. apríl 2008
breytt: 2. nóvember 2013

Skilaboð: