Erum við að ganga rétta leið?
Ágætu lesendur.
Haustið er frábær tími til útiveru og fjallgangna. Við sjáum fjöllin í nýju ljósi og aðstæður eru aðrar og oft skemmtilegri en að sumarlagi. Að ösla áfram í nýföllnum snjó, finna svalan vindinn leika um sig og stuttur dagurinn er til þess að nær allar ferðir enda í notalegheitum heima, sem er ljúfur endir á góðri ferð.
En nú skulum við aðeins rýna í okkur sjálf og hvað við getum.
Nú er margoft búið að gerast á þessu ári, að annars vel búið fólk er að týnast með mis alvarlegum afleiðingum í slæmu skyggni, í aðstæðum sem auðvelt ætti að vera að koma sér úr af sjálfsdáðum ef viðkomandi hefðu haft einfaldasta og jafnframt nauðsynlegasta búnað til rata eftir.
Hér er um grundvallarakunnáttu sem allt útivistarfólk á að kunna skil á um að ræða, sem því miður allt of margir af öllum þeim fjölda sem farið hefur að stunda útivist hafa samt ekki tileinkað sér.
Sjálfur starfa ég í björgunarsveit og er búinn að fara í minnst sex leitir og útköll það sem af er ári út af fjallafólki sem hefði auðveldlega komið sér niður með lágmarksþekkingu. Nú síðast endaði leitin dapurlega eins og allir vita.
Er ekki orðið tímabært að koma af stað vakningu meðal fjalla- og útivistarfólks um að bæta þessa þekkingu? Í samtölum mínum við fjölda fólks sem er í ýmiskonar gönguhópum og ferðafélögum hefur mér orðið hverft við, þegar ég skynja hversu fáir kunna skil á notkun áttavitans. Ég heyri fólk oft segja að einn í hópnum sé nú oftast með GPS tæki og þau gæti sín vel á að halda hópinn. En GPS tæki er fjarri því að vera nægilega gott tæki til að rata eftir ef fólk villist og ferðin tefst. Hvers vegna? Jú, vegna þess að GPS tækið gengur fyrir rafhlöðum. Eins frábær og þessi tæki eru annars, þá gerist það of oft að rafhlöðurnar klárast og þá er tækið gagnslaust. Meira að segja geta aukarafhlöðurnar sem teknar eru með líka klárast. Sjálfur hef ég lent í þeirri aðstöðu oftar en einu sinni. Þess vegna er áttavitinn og á að vera í fyrsta sæti, sem öryggistæki okkar á fjöllum. Ég er búinn að eiga minn áttavita í 32 ár og hef enn ekki þurft að skipta um rafhlöður í honum, þar sem engin þörf er á þeim. Áttavitinn hefur ótal oft komið mér á rétta leið í áfangastað, hvort sem það er bíllinn sem ég hóf gönguna frá eða fjallakofi. Með áttavitanum erum við alltaf á „beinu brautinni“. Allra reyndustu fjallamenn hafa villst illilega í aðstæðum þar sem áttavitans var þörf. Fyrir nokkrum árum voru tveir björgunarsveitarmenn kolviltir í námunda við Hrafntinnusker í þoku og logni í tvo sólarhringa. Þar sem um vana menn var að ræða, hófst leit seinna en ella, en þegar þeir fundust, urðu þeir að játa á sig þau mistök að hafa ofmetið sjálfa sig og því ekki tekið áttavitann með. Ég kann fleiri slíkar sögur af illa villtu fólki sem hefði ekki lent í þessum aðstæðum með áttavita.
Villtur maður gengur ekki í beina línu, líkt og hann myndi gera í góðu skyggni eða ef hann hefði áttavitann. Viltur maður getur þess vegna gengið ótal hringi og slaufur á litlu svæði en samt talið sig vera að ganga nokkuð beina stefnu.
Nú þurfum við að hefja mikið átak í að hefja áttavitann aftur til fyrri vegs og virðingar. Þegar ég byrjaði í fjallamennskunni fyrir um 30 árum fengu flestir sér áttavita og góð aðsókn var að áttavitanámskeiðum. Með tilkomu GPS töldu margir að tími áttavitans væri liðinn og markvert færri af þeim sem byrja í útivistinni tileinka sér notkun hans. Þetta er mikil afturför, á meðan framfarir eru samt almennt í allri útivist.
Lærum nú af mistökum þeirra sem hafa farið á fjöll án áttavitans á árinu.
Lærum á áttavitann og höfum með okkur í allar ferðir.
Skoðum kort og loftmyndir af svæðinu sem við ætlum á. Þið finnið það á ja.is.
Sjálfur fer ég helst ekki út fyrir bæinn án áttavitans. Á tvo, einn stóran sem ég nota þegar ég veit að ég þarf að nota hann til að rata eftir og svo á ég einn örlítinn sem er falinn í vasanum hjá mér þegar ég þarf áttavitann aðeins sem öryggistæki ef skyggni skyldi versna.
Eftir áramót mun verða vakning í notkun áttavita og mun m.a. verða boðið upp á útivistarnámskeið hjá Mími þar sem góður tími verður tekinn í að kenna fólki á áttavita.
Eigið góða daga á fjöllum, farið varlega og ratið aftur heim.
Grein og ljósmynd af áttavitum: Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Erum við að ganga rétta leið?“, Náttúran.is: 14. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/14/erum-vid-ad-ganga-retta-leid/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. mars 2013