Hættuleg efni / Tilbúin efni - viðmið
Vörur sem fólk kaupir og notar daglega innihalda efni sem eiga að auka endingu varanna, gera þær mýkri, minnka brunahættu osfrv. Kaupmynstur okkar endurspeglast á heimilum okkar á máta sem fæstir gera sér grein fyrir. Það er til dæmis hægt að greina yfir 150 mismunandi efni í „rykrottum“ á hverju meðalheimili. Mörg þeirra koma frá efnum sem Evrópusambandið hefur metið sem skaðleg, þ.e sem eru eitruð, fitusækin og brotna seint niður í líkamanum. Hið mikla magn efna á heimilum okkar er aðalástæða þess að magn efnanna eykst meira í mannfólkinu en í náttúrunni. Efnanotkun heimilanna ein stærsta uppspretta tilbúinna efna í náttúrunni.
Með nýrri löggjöf í Evrópusambandinu árið 1981, þurfti að skrá, ekki meta, öll efni sem voru framleidd og seld innan sambandsins. Sótt var um skráningu fyrir 100.106 efni. Talið er að í dag séu allt að 70.000 efni í notkun í löndum Evrópusambandsins og þar af um 30.000 sem eru framleidd í meira magni en eitt tonn per fyrirtæki og ár. Þar af hafa um 5% farið í gegnum einhverskonar hættumat. Þekking okkar á áhrifum efna á umhverfi og heilsu er því enn af mjög skornum skammti.
Fólk heldur að efni sem eru notuð í dag, t.d í sjampó, fötum, byggingarefni, leikföngum og öðru séu prófuð og viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum. Nær er að segja að þau séu ekki bönnuð því að það er ekki til nein lagasetning sem leggur það á herðar framleiðenda að athuga skaðsemi efna áður en þau eru notuð í vörum eða á annan máta markaðssett.
Það er hins vegar opinberra aðila að rannsaka efnin til að sanna að þau séu skaðleg heilsu fólks og umhverfinu. Þá fyrst er hægt að banna efnin. Sönnunarbyrðin er því hjá hinu opinbera en ekki þeim sem markaðssetja efnin. Náttúran.is telur eðlilegt að neytendur séu upplýstir um áhrif hinna ýmsu efna sem vörur geta innihaldið. Því er farið fram á að seljendur skrái og gefi upp hvaða flokkun og varúðar- og hættusetningar, samkvæmt lögum og reglugerðum, eigi við um viðkomandi vöru. Hér er því einungis verið að fara fram á að viðkomandi seljandi gefi upp lögboðnar upplýsingar sem hann þarf að gefa upp á öðrum stöðum, eins og til dæmis á öryggisblöðum og merkingum vara.
Upplýsingar um flokkun ásamt hættu- og varúðarsetningum er að finna í reglugerð 236/1990 [um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni] ásamt síðari breytingum. Hér er rétt að benda á að í vissum tilfellum, alls ekki öllum, þurfa framleiðendur að gefa upp þessar upplýsingar í öryggisblöðum.
Dæmi:
Efni sem eru talin skaðleg eru t.d. eldtefjandi efni með brómi sem eru í rafmagnstækjum, rafmagnssnúrum, vefnaðarvörum, gluggatjöldum, áklæðum og húsgögnum. Þau eru talin vera skaðleg umhverfinu og hugsanlega geta haft áhrif á frjósemi og heilsu fólks.
Mýkingarefni, svokölluð þalöt, sem eru notuð í lím, málningu, lakk, snyrtivörur, ilmvötn, plast í gólfefnum og vissum leikföngum. Þau eru talin vera skaðleg umhverfinu og hugsanlega geta haft áhrif á frjósemi og heilsu fólks.
Lífræn efnasambönd með tini sem er m.a að finna bátamálningu, vefnaðarvöru, fötum, leðurvörum og gólfmottum. Auk þess að vera skaðleg umhverfinu eru þau talin vera ertandi fyrir húð og augu.
Yfirborðsvirk efni í t.d sápu og þvottaefnum sem eru skaðleg umhverfinu en geta einnig haft áhrif á exem og aðra húðsjúkdóma.
Grafík: Tákn sem notað er eingöngu hér á vefnum þegar fjallað er um tilbúin og/eða hættulega efni almennt ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Hættuleg efni / Tilbúin efni - viðmið“, Náttúran.is: 4. ágúst 2012 URL: http://nature.is/d/2007/03/28/haettuleg-efni/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. mars 2007
breytt: 4. ágúst 2012