Tvo þætti þarf að hafa í huga þegar kaffivélin er annars vegar. Í fyrsta lagi notar hún mikla orku og í öðru lagi fer mikill pappír í kaffisíurnar. Það minnkar því álag á umhverfið að kaupa kaffisíur úr óbleiktum, endurunnum pappír. Sumar kaffivélar eru þannig að þær eru með orkusparandi ham.

Espressovélar gera engar kröfur um pappír og eru að því leiti umhverfisvænni, auk þess sem flestar heimilisvélar eru aðeins í gangi meðan að verið er að laga kaffið. Mjög ódýrar kaffivélar endast að jafnaði ver svo skynsamlegra er að kaupa vandað tæki. Síendurtekin kaup á kaffivélum gegnum lífið hefur auðvitað neikvæð umhverfisáhrif. Annað mál er svo hvort að risastórar kaffivélar, hvort sem það eru espressovélar eða aðrar nútíma kaffivélar séu nauðsynlegar á venjulegum heimilum. Hugsið ykkur magnið af málmum og plasti sem fer í eina slíka vél!

Varðandi kaffigerð skiptir kaffivélin þó kannski minna máli en val á kaffinu sjálfu því umhverfis- og samfélagsleg áhrif kaffiræktunar eru gríðarleg nema í lífrænni- og sanngirnisvottaðri framleiðslu. Með því að kaupa lífrænt ræktað kaffi getur þú tryggt að þú sért ekki að menga líkama þinn eða umhverfið. Sanngirnisvottun (Fair Trade) tekur til bæði te- og kaffiframleiðslu og tryggir að fólkið sem framleiðir vöruna vinni við mannsæmandi aðstæður og kjör.

Birt:
17. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Kaffivél“, Náttúran.is: 17. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/06/22/eldhsi-kaffivl/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. júní 2007
breytt: 11. júní 2014

Skilaboð: