Fataskápurinn í svefnherberginu
Umhverfisvæn, græn eða vistvæn fatahönnun hefur löngu ruðið sér til rúms í nágrannalöndum okkar og er að vinna á hérlendis. Það sem átt er við með umhverfisvænni tísku og hönnun er að grunnhugsun hönnuðanna sé í sjálfbæra átt, þ.e. að hönnunin beri vott um ábyrgð gagnvart umhverfinu og ábyrgð gagnvart heilsu þess sem notar hana.
Fatnaður er okkur mannfólkinu nauðsynlegur og stendur okkur næst í orðsins fyllstu merkingu. Húðin snertir efnið og því er mikilvægt að íhuga hvað við berum næst okkur. Mörg litarefni og framleiðsluferli fela í sér að efnið er meðhöndlað með sýruböðum, og eiturefnum af ýmsum gerðum, sumum jafnvel skaðlegum heilsunni. Eins er framleiðslan sjálf oft uppspretta alvarlegra umhverfisáhrifa og heilsutaps fólks.
Sum efni eru umverfisvænni en önnur. Bómull er eitt skaðlegasta hráefnið sem notað er í föt vegna mikillar eiturefnanotkunar við ræktun þess. Fyrir hvert kg. af bómull sem er ræktað þarf um eitt kg. af eiturefnum. Sé hins vegar valin lífrænt ræktuð bómull þá er eiturefnanotkun næstum bönnuð og notkun skaðlegra efna við meðhöndlun efnanna haldið í algeru lágmarki. Sanngirnisvottun er staðfesting á því að varan er unnin á siðferðislega sanngjarnan hátt, án skaðlegra áhrifa fyrir starfsmenn og að þeir fái sanngjörn laun fyrir vinnuna.
Flest fólk skapar sér eigin fatastíll sem er hluti af persónuleika einstaklingsins. Sumir sauma sér öll föt, aðrir kaupa megnið í Rauða krossinum eða á „second hand“ mörkuðum og enn aðrir fylgja tískustraumum. Góð föt eru oftast dýrari en óvönduð og endast því miklu lengur. Það margborgar sig því að kaupa vandaða vöru. Þegar þú hefur ekki not fyrir föt lengur, gefðu þau þá áfram, annað hvort til vina eða til Rauða krossins. Tekið er við fötum og skóm til Rauða krossins á endurvinnslustöðvum um allt land. Föt og efni eru endurnýtt eða seld, bæði hérlendis og erlendis.
Birt:
Tilvitnun:
Náttúran er „Fataskápurinn í svefnherberginu“, Náttúran.is: 11. janúar 2011 URL: http://nature.is/d/2010/10/08/fataskapurinn-i-svefnherberginu/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 8. október 2010
breytt: 13. nóvember 2011