Græðgin í auðlindir landsins
Nú stendur yfir herferð um yfirtöku á náttúruauðlindum landsins. Við eigum land, fisk og orku. Græðgisöflin eru á eftir öllu þessu. Hér eru nokkur dæmi:
Landið
Þeir sem hafa verið að rækta erfðabreytt bygg með mannlegum vaxtarþáttum eins og IGT-1 í gróðurhúsum (Sjá frétt um rof hjá Barra á Ruv.is) eru nú að stefna að útiræktun, eftir ,,rannsóknaræktun” á Gunnarsholti (sjá greinina „Nýju fötin keisarans enn og aftur“ á Náttúran.is). Á þessum rannsóknatíma hefur nær ekkert af þeim gögnum sem Evrópuumhverfissamþykktir fara fram á verið safnað. Hvað vantar í gagnasöfnunina? Jú samkvæmt Evrópulöggjöf frá 2001 sem Ísland skrifaði undir loks 2010 á að gera áhættumat á öllum þattum vistkerfanna frá fuglum og dýrum niður í örverur í jarðvegi, með gagnasöfnun fyrir, á meðan og á eftir rannsóknaræktun. Þetta hefur ekki verið gert.
Útiræktun á vaxtarþáttum fyrir snyrtivörur (tilheyra ,,pharma crops”) hefur ekki verið leyfð neins staðar í heiminum nema í tilraunaskini og hvergi á stærra landsvæði í Evrópu en á Íslandi. Og hvers vegna er slík ræktun umdeild? Það er vegna margra óvissuþátta (sjá grein á Erfðabreytt.net) og þess vegna eru umhverfissinnar á þeirri skoðun að náttúran eigi að njóta vafans (varúðarreglan, sjá nánar um varúðarregluna á vef Evrópusambandsins), líkt og gert er ráð fyrir í alþjóðasamningum sameinuðuþjóðanna um sjálfbæra þróun.
Og til hvers á að leggja okkar verðmæta land undir slíka ræktun? Til þess að unnt sé að framleiða hrukkukrem eins og nú er gert í gróðurhúsum? Er það virkilega það eina sem við höfum áhuga á til verðmætasköpunar? Aldrei myndi ég bera slíkt krem framan í mig. Náttúra okkar er miklu meira virði sem hrein og tær, og því ætti Ísland að lýsa sig EB laust - þ.e. svæði án erfðabreyttra lífvera (GMO free) eins og mörg lönd í heiminum, m.a. í Evrópu (sjá kort af svæðum án erfðabreyttra lífvera í Evrópu). Tvö svæði á Íslandi hafa nú þega lýst sig ,,Svæði án erfðbreyttra lífvera” (sjá kort yfir svæði án erfðbreyttra lífvera á Íslandi) og fleiri ættu að koma í kjölfarið.
Fiskurinn
Nú er unnið að því á Alþingi að fiskveiðisamfélögin í kringum landið fái aftur aðgang að kvóta – en þessu er mótmælt af bönkum sem hafa gefið lán út á fiskiframtíðir og kvótagreifum sem hafa skuldsett sig með því að veðsetja kvótann. En eiga þeir því kvótann? Nei alls ekki, við eigum kvótann sem almenningur. Framtíðarkynslóðir eiga kvótann. Því eigum við að dreyfa honum aftur um landið til að veita atvinnu og byggja aftur undir fiskveiðimenninguna í sjávarþorpum landins og sjá til þess að unnt sé að kaupa ferskan fisk út um allt land, ekki bara í Reykjavík.
Orkan
Af hverju ættum við ekki að virkja hvern læk og leggja hálendið undir lón? Já og leggja háspennulínu yfir Sprengisand? Af hverju ekki að bora í hvert jarðhitakerfi og blása orkunni út á tugum ára? Já og leggja sæstreng til Evrópu – en til hvers? Öll okkar fáanlega orka er varla dropi í hafið af þeirri orku sem Evrópa þarf! Nú þegar olíuna er að þverra – höfum við þá rétt til þess að nýta þá orku sem framtíðarkynslóðir ættu að hafa aðgang að? Er virkilega ekki hægt að „koma hjólum atvinnulífsins“ af stað nema með eyðileggingu náttúru Íslands? Erum við virkilega land hinna klikkuðu karlmanna eins og Andri Snær komst svo vel að orði? (Sjá greinina „Land hinna klikkuðu karlmanna“ á vef Andra Snæs Magnasonar). Í hvað á svo að nýta alla þess orku? Er ekki nóg að 80% af orkuframleiðslu fari til stóriðju sem tekur allan arðinn úr landi því Íslendingar eiga ekkert í þessum erlendu fyrirtækjum?
Við þurfum að vera athugul sem þjóð og neita öllum þessum græðgisþáttum sem lýst er hér að ofan. Í efnahagsbólunni voru opnar hringdyr á milli bankanna, stjórnmálamanna og orkuútrásarmanna. Það sama hefur einnig komið í ljós að sé í gangi með banka, stjórnmálamenn og kvótagreifana er að gróðinn fer allavega að hluta til skattaskjóla.
Mikill þrýstingur er nú frá þeim sem vilja leggja undir sig landið okkar til ræktunar erfðabreytts byggs úti í hreinni náttúru Íslands. Þetta verðum við að varast. Þetta bygg á að vera ræktað inni í sérbyggðum og öruggum gróðurhúsum.
Verndarnýting okkar á náttúrunni er miklu verðmætari en skammsýn landnýting þar sem henni er fórnað fyrir stundargróða nokkurra einstaklinga. Ég hvet landann því til að standa saman um að varðveita íslenska nátturu til framtíðar.
Höfundur: Kristín Vala Ragnarsdóttir BS, MS, PhD.
Grafík: Land, fiskur, erfðabreytt og orka, Guðrún Tryggvadótitr og Signý Kolbeinsdóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Kristín Vala Ragnarsdóttir „Græðgin í auðlindir landsins“, Náttúran.is: 13. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/13/herferd-um-yfirtoku-audlinda-landsins/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. maí 2012