Þú skalt ekki listar njóta - Listalausi dagurinn
Listalausi dagurinn er í dag. Markmið með listalausum degi er að minna á hve stórt hlutverk listir gegna í daglegu lífi okkar. Lagt er til að öll list verði sniðgengin þennan dag.
Eftirfarandi 15 boðorð eru þér til leiðbeiningar.
- Ekki fara á listasöfn, hönnunarsöfn, gallerí eða minjasöfn sem geyma listaverk.
- Ekki horfa á myndlistarverk, þar með talin málverk, ljósmyndir, höggmyndir og innsetningar, hvort sem er úti sem inni.
- Ekki fara á tónleika.
- Ekki hlusta á tónlist, hvorki af CD, vínil, snældu, stafrænum tónlistarspilurum né snjallsímum (hringitónar meðtaldir).
- Ekki spila tölvuleik með grafískri mynd.
- Ekki fara á danssýningu.
- Ekki lesa skáldsögu, ljóð eða nokkurn annan texta sem talist gæti til fagurbókmennta.
- Ekki fara í leikhús.
- Ekki horfa á kvikmynd, hvorki í bíó, af tölvu, í sjónvarpi né hverskonar skjá
- Ef einhvers konar listaverk birtist í sjónvarpi, t.d. í fréttum eða auglýsingum, ber að loka augunum eða líta undan.
- Ef tónverk heyrist í sjónvarpi eða útvarpi ber að lækka niður í tækinu.
- Ekki horfa á byggingar sem eru hannaðar af arkitekt.
- Ekki horfa á eða ganga um garða sem eru hannaðir af landslagsarkitekt.
- Ekki horfa á eða ganga í sérhönnuðum fötum eftir fatahönnuð.
- Ekki gera neitt eða njóta neins sem hægt væri að túlka sem list eða hefur í sér listrænt gildi, þar með talin verk dansara, hönnuða, kvikmyndagerðarmanna, leikara, myndlistar-manna, rithöfunda og tónlistarmanna.
Engin myndskreyting er með greininni, af augljósum ástæðum.
Birt:
1. nóvember 2011
Tilvitnun:
Kolbrún Halldórsdóttir „Þú skalt ekki listar njóta - Listalausi dagurinn“, Náttúran.is: 1. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/01/thu-skalt-ekki-listar-njota/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.