Anna Rósa grasalæknir og íslenskar lækningajurtir - viðtal
Á dögunum kom út bókin Anna Rósa grasalæknir og íslenskar lækningajurtir notkun þeirra, tínsla og rannsóknir. Höfundur bókarinnar, Anna Rósa, er grasalæknir og nuddari að mennt, og hefur, auk þess að skrifa þessa fallegu bók um íslenskar lækningajurtir á síðastliðnum tveimur árum, þróað eigin vörulínu úr lífrænum jurtum, einnig undir eigin nafni og starfsheiti Anna Rósa grasalæknir. Sjá grein.
Af tilefni útkomu bókarinnar ræddi Náttúran.is við Önnu Rósu á Svansvottuðu kaffihúsi Kaffitárs í Borgartúni fyrr í dag.
Til hamingju með útgáfuna Anna Rósa. Hvað kom til að þú ert sjálf útgefandi að bókinni þinni?
Bara af því að það er miklu meira gaman að gefa út sjálf. Ég vildi líka fá að ráða hve langan tíma ég gæfi mér í undirbúninginn og fyrir mér var það mikilvægt að fá að grúska í heimildum og stunda þannig endurmenntun fyrir sjálfa mig í leiðinni. Við hverja jurt í bókinni vísa ég í rannsóknir sem gerðar hafa verið en ég las þúsundir rannsóknarskýrslna á meðan ég var að skrifa bókina og vísa í margar þeirra í heimildaskrá bókarinnar.
Hvað með markaðssetningu. Er ekki flókið að markaðssetja bókina ein, án stuðnings útgáfufyrirtækis?
Markaðsetningin er ekki málið, tekur bara tíma, eins og allt annað. Ég er líka í ágætri æfingu eftir að hafa þróað og markaðssett eigin vörulíinu sl. tvö ár.
Hvað varð til þess að þú skrifaðir bókina Anna Rósa?
MIg langaði að uppfræða almenning. Mér fannst tilfinnanlega vanta á heildræna sýn yfir íslensku lækningajurtirnar en ég fer inn á sögu hverrar jurtar, vitna í gamlar heimildir Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal og Odds Jónssonar Hjaltalíns, auk þess sem að útbreyðsla, nýttir hlutar, tínsla, virk efni, áhrif og notkun auk skammta og varúðartextar eru birtir við umfjöllun um hverja jurt fyrir sig.
Hvernig gengur að sameina öll þessi verksvið, vöruþróun, bókaskrif og grasalækningar á eigin stofu?
Það gengur fínt. Það er gríðarlega gaman að stunda lækningarnar, ég mun ekki hætta því. Ég stunda þær einn „langan“ dag í viku og reyni að láta allt hitt passa inn í restina af vikunni.
Telur þú að bókarskrifin hafi gert þig hæfari sem grasalækni?
Já ég vona það. Ég gaf mér tíma til að rannsaka fyrir mig og gera nýjar uppgötvanir. Þegar ég fór að skrifa bókina fann ég t.d. engar nýlegar heimildir um notkun um blóðarfa á vesturlöndum. Blóðarfi virtist vera gleymd jurt eða kannski bara alls ekki í tísku. Vitneskja um hana er allavega mjög lítil á vesturlöndum nema í gömlum heimilidum. Ég leitaði logandi ljósi en fann engar nýjar heimildir um blóðarfa en þegar ég leitaði í kínverskum heimildum þá fann ég fullt af upplýsingum um hann. M.a. voru gerðar klíniskar rannsóknir á áhrifum blóðarfa á tannholdsbólgu. 60 tannlæknanemar notuðu eingöngu munnskol úr blóðarfa tvisvar á dag í tvær vikur en ekki var leyfilegt að bursta tennurnar meðan á rannsókninni stóð. Að tveimur viknum liðnum þótti sýnt að blóðarfi hafði jákvæð áhrif á tannholdsbólgu og bakteríumyndun í munni.
Hvað hefur nýst þér best til markaðssetningar Anna Rósa?
Tvímælalaust Facebook. Ég er með 13 þúsund aðdáendur á Facebooksíðunni minni. Það hefur haft þau áhrif að yngra fólk kemur til mín og hefur mikinn áhuga á því sem ég er að gera. Grasalækningar virka mjög vel sem forvarnir og því er ómetanlegt að fá allt þetta unga fólk til sín.
Takk fyrir Anna Rósa og gangi þér allt best!
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Anna Rósa grasalæknir og íslenskar lækningajurtir - viðtal“, Náttúran.is: 1. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/31/anna-rosa-grasalaeknir-og-islenskar-laekningajurti/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. október 2011
breytt: 3. nóvember 2011