Á þriðjudag var haldin ráðstefna um ESB og umhverfismál. Að ráðstefnunni stóðu utanríkisráðuneytið og umhverfisráðuneytið í samvinnu við framkvæmdastjórn ESB. Sjá frétt um ráðstefnuna, smella hér.

Ráðstefnan var mjög fróðleg og varpaði ljósi á það sem að gæti áunnist með þátttöku í Evrópusambandinu hvað varðar umhverfismál. Náttúruvernd og líffræðileg fjölbreytni, þ.e. verndun búsvæða fugla og annarra lífvera er megininntak viðmiða Natura 2000 sem Ísland þyrfti að aðlaga sig að ef sótt verður um aðild. Íslendingar þyrftu að fara í umfangsmikla vinnu við greiningu svæða og lífvera sem við viljum leggja áherslu á að vernda en Evrópusamabandið myndi síðan samþykkja eða hafna slíkum tillögum á grundvelli sinna viðmiða. Komi ekki til þeim mun betri raka fyrir verndun frá umsóknaraðila, í þessu tilviki þá Íslandi, verða þær ekki teknar til greina. Mikil vinna er því fyrir höndum, fari svo að við sækjum um aðild og miklu fé þarf að verja til rannsókna og gagnavinnslu á þessu sviði áður en yfirleitt er hægt að sækja um aðild. Ávinningurinn er þó umtalsverður að áliti allra framsöguaðila.

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands var einn af framsögumönnum á ráðstefnunni og hélt erindi um hvað umhverfisverndarsamtök gera í Brüssel. Niðurstaða Árna af skoðun þessar mála er að umhverfisverndarsamtök hafi veruleg áhrif og njóti til þess ýmissa styrkja. Framlag umhverfisverndarsamtaka er mjög mikilvægur þáttur en markmið umhverfisverndarsamtaka sé að ESB og aðildarríkin standi við skuldbindingar sínar um sjálfbæra þróun varðandi verndun líffræðilegrar fjölbreytni, takmörkun á hlýnun andrúmsloftsins við 2°C að meðaltali og stöðva rányrkju á auðlindum sjávar. Umhverfisvernd. Umhverfisverndarsamtök reyna að hafa áhrif á afstöðu og málflutning Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi. T.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Árni segir að „Undanfarna áratugi og þá ekki síst eftir að Evrópuþingið (European Parliament) varð áhrifameira í kjölfar Lissabon-samkomulagsins hafa umhverfisverndarsamtök lagt æ meiri áherslu á að hafa áhrif á lagasetningu Evrópusambandsins. Lög eru undirbúin á vettvangi Framkvæmdastjórnarinnar. Evrópuþingið hefur umsagnarrétt og getur haft umtalsverð áhrif á frumvarpið (Directive á ensku) en lokaákvörðin er tekin af ráðherraráðinu (Council). Eftir að lög hafa verið sett þarf að framfylgja þeim (Implementation) og það ferli getur reynst snúið fyrir samtök sem sjaldnast hafa marga starfsmenn á sínum snærum.
Umhverfisverndarsamtök koma strax að málum við undirbúning lagasetningar, gera kröfur sínar og koma að upplýsingum. Sum þeirra, t.d. World Wide Fund for Nature (WWF) leggja mikla áherslu á að vinna með Framkvæmdastjórninni, Evrópuþingmönnum og ráðherraráðinu. Samtökin hafa 35 starfsmenn á skrifstofu sinni. Önnur stór samtök eru Friends of the Earth, European Environment Bureau og Greenpeace (Greenpeace nýtur þó engra styrkja).
Framkvæmdastjórnin, Evrópuþingið og ráðherraráðið eru misgagnsæ en á vettvangi ESB eru umhverfisverndarsamtök mikilvægur umsagnaraðili.“

Sjá kynningu Árna Finnssonar á ráðstefnunni. Ráðstefnan fór fram á ensku.

Sjá frétt umhverfisráðuneytisins um ráðstefnuna, smella hér.

Ljósmynd: Í pallborði á ráðstefnunni, frá vinsri; Árni Finnsson formaður NSÍ, Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, Michael O'Briain frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og varadeildarforseti við lagadeild HÍ og Kadri Moller frá umhverfisráðuneyti Eitslands. Umhverfisráðeytið.

Birt:
27. október 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisverndarsamtök njóta trausts og hafa veruleg áhrif innan ESB“, Náttúran.is: 27. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/27/umhverfisverndarsamtok-njota-trausts-og-hafa-verul/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: