Ágætis byrjun - Umhverfisstofnun gefur foreldrum poka með Svansmerktum ungbarnavörurm
Í dag afhenti Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, nýbökuðum foreldrum, Auði Jörundsdóttur og Benedikt Hermannssyni fyrsta pokann í verkefninu Ágætis byrjun á heilsugæslunni Miðbæ. Ágætis byrjun er verkefni sem Umhverfisstofnun stendur fyrir til að kynna umhverfismerkið Svaninn og hvetja foreldra til að nota slík merki sem hjálpartæki við vöruval. Svandís lýsti yfir mikilli ánægju með verkefnið og benti á mikilvægi þess að huga vel að vöruvali fyrir ungabörn.
Ágætis byrjun gengur út á að kynna Svaninn og dreifa Svanspokum til nýbakaðra foreldra. Verkefnið er unnið að norskri fyrirmynd en þar hefur sambærilegt verkefni verið í gangi síðan árið 2005. Í pokunum er bæklingur sem fjallar um umhverfismerkið Svaninn og kosti þess að velja umhverfisvottað fyrir ungabörn. Í pokanum eru einnig vöruprufur en tilgangurinn er að varpa ljósi á að Svanurinn hefur vottað breytt úrval af ungbarnavörum og að foreldrar hafa því raunverulegt val um vöru sem er betri fyrir umhverfið og heilsuna. Verkefninu er ætlað að ná til alls landsins og er miðað við að öll börn fædd á Íslandi á tímabilinu nóvember 2011 til nóvember 2012 fái pokann.
Dreifing er hafin um allt land
Búið er að dreifa pokunum til fæðingadeilda á landsbyggðinni og heilsugæslna á höfuðborgasvæðinu. Starfsmaður Svansins, Elva Rakel Jónsdóttir, segir að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður taki vel í verkefnið. „Ég er þessa dagana að kynna verkefnið fyrir hjúkrunarfræðingum á höfuðborgarsvæðinu og mér er hvarvetna mjög vel tekið. Ég held að heilbrigðisstarfsfólk sjái þörfina fyrir fræðslu af þessu tagi en með verkefninu er í raun verið að sameina umhverfismál og lýðheilsumál“. Yfirhjúkrunarfræðingur heilsugæslunnar í Miðbæ, Jóhanna Eiríksdóttir, telur verkefnið brýnt. „Hér tökum við því fagnandi að styðja við umhverfishugsun, ekki veitir af“.
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna.
Umhverfisstofnun er rekstraraðili svansins á Íslandi.
Sjá þau fyrirtæki sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.
Sjá þá vöruflokka sem eru í boði af Svansvottuðum vörum hér á landi undir „Vörur/Vottað Svanurinn“ en í hverjum flokki finnur þú hvaða fyrirtæki flytja inn/dreifa viðkomandi vöruflokki og hvað vörurnar heita. Sé varan til nákvæmlega skráð til sölu eða kynningar er hana að finna í Svansbúðinni hér á Náttúrumarkaði. Samsvarandi flokkur er fyrir þjónustuflokkana undir „Þjónusta/Vottað Svanurinn“ hér á Grænum síðum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ágætis byrjun - Umhverfisstofnun gefur foreldrum poka með Svansmerktum ungbarnavörurm“, Náttúran.is: 27. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/27/agaetis-byrjun-umhverfisstofnun-gefur-foreldrum-po/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.