Regnskógurinn
Regnskógar heimsins eru í hitabeltinu við miðbaug. Stærstu regnskógarnir eru í Brasilíu, Kongó og í Indónesíu. Einnig eru regnskógar í Suðausturasíu, Hawaii og í Karíbahafi. Amazonregnskógurinn í Suður Ameríku er stærsti regnskógur heimsins.
Regnskógar eru eins og nafnið gefur til kynna með hátt rakastig. Regnið í regnskógunum er 4000 – 7600 mm á ári. Til samanburðar er rigningin í Reykjavík um 800 mm á ári.
Líffræðilegur fjölbreytileiki er hvergi eins mikill og í regnskóginum. Á nokkrum fermetrum geta verið hundruðir mismunandi tegunda. Öll dýrin og plöntunar eru háðar hvor annarri. Þannig lifa sum skordýr einungis á ákveðinni trjátegund á meðan að sumir fuglar éta einungis vissa skordýrategund. Ef trénu er eytt, deyja skordýrin og einnig fuglarnir sem á þeim lifa. Þannig myndar allt líf í skóginum eina órjúfanlega heild.
Í Regnskóginum er nánast allt efni og öll orka endurnýtt. Ef laufblað fellur á skógarbotninn rotnar það og næringarefnin fara niður í jarðveginn. Regnskógurinn endurvinnur jafnvel sína eigin rigningu. Vatnið gufar upp af skóginum, myndar ský og rignir aftur niður á trén.
Regnskógarnir eru manninum nauðsynlegri vegna þess að þeir geyma mikið magn kolefnis sem annars væri í andrúmsloftinu. Auk þess þá koma mörg efni og lyf úr jurtum sem vaxa í regnskóginum. Hjartalyf eru t.d. upprunnin í regnskóginum.
Ekki er hægt að rækta aftur regnskóg, sé búið að eyðileggja hann. Regnskógarnir hafa þróast í 70 til 100 milljónir ára. Lífríki þeirra er einstakt og ekki hægt að endurskapa það verði það eyðileggingu að bráð.
Grafík: Regnskógar heimsins (dökkgrænu svæðin), af Wikispace.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Regnskógurinn“, Náttúran.is: 25. október 2011 URL: http://nature.is/d/2007/04/16/regnskgurinn/ [Skoðað:3. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. apríl 2007
breytt: 24. október 2011