Við hvað starfar þú eða hvert er viðfangsefni þitt:

Ég starfa við margt, mest þó skriftir og alþýðurannsóknir. Ég rækta matjurtir til heimilisins og stunda svolitla tóvinnu í hjáverkum. Svo er ég ættmóðir og félagsvera og það tekur allt sinn tíma.

Hvaða menntun eða reynslu hefur þú að baki?

Ég er með myndlistarnám en annað er flest sjálflært í gegnum tíðina.

Hvað lætur þig tikka?

Forvitni og ánægja yfir að vera til og sátt við flesta hluti.

Finnst þér að þú getir haft áhrif í samfélaginu?

Ekki spurning. Ég er meðvituð um að hafa haft áhrif á samtíð mína á ýmsum stigum lífsgöngunnar og geri það enn.

Hvaða viðfangsefni finnast þér mikilvægust einmitt núna?

Sem ættmóðir er mikilvægt að halda vissri reisn, vera ábyrg og ern og engum til byrði. Sýna að lífsspekin sem maður tileinkaði sér sé einhvers virði og gefa þannig öðrum kjark til að taka sínar eigin sjálfstæðu ákvarðanir.

Ræktar þú eigin jurtir eða nýtirðu þér villtar jurtir?

Ég geri hvort tveggja og hef um langt skeið.

Á hvaða stigi finnst þér náttúruvernd á Íslandi vera í dag?

Æ, ég veit það ekki. Ætli náttúran sýni okkur ekki í tvo heimana ef við vöndum ekki ungengnina við hana og ofbjóðum þolinmæði hennar.

Hvernig myndir þú vilja sjá vef Náttúrunnar þróast?

Það mætti skapast meiri umræðugrundvöllur um gildi þess að ganga vel um og upplýsingar um samfélög sem hafa breytt lífsmynstri íbúanna.

Áttu þér uppáhalds málshátt eða lífsspeki?

Í augnablikið er það ráð náttúrusinnans og heimspekingsins H.D. Thoreaus. Þegar þú lendir í vanda þá einfaldaðu, einfaldaðu og einfaldaðu sýn þína eða viðhorf til viðfangsefnisins.

Kærar þakkir HIldur

Ljósmynd: Hildur Hákonardóttir í gróðurhúsi sínu, sjálfsmynd.

Birt:
6. október 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúrubarnið Hildur Hákonardóttir“, Náttúran.is: 6. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/06/natturubarnid-hildur-hakonardottir/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. október 2011

Skilaboð: