Vatnsnotkun í veröldinni er nú meiri en nokkru sinni fyrr. Frá því um 1950 hefur hún meira en þrefaldast. Ástæðan er fyrst og fremst mikil fólksfjölgun en einnig aukin vatnsþörf á hvern íbúa. Um 73% af vatni sem mannfólkið ný tir fer til landbúnaðar og aðallega í áveituskurði á þurrum svæðum. Áveiturnar sóa hins vegar miklu vatni og oft nýtast ekki nema um 40%. Iðnaður ýmiss konar notar um 21% vatnsins og skilar mjög miklu magni aftur út í náttúruna. Því miður er þetta vatn ekki alltaf hreint og þarf að hreinsa það áður en það er endurnýtt.

Aukin vatnsnotkun veldur meira álagi á takmarkaðar vatnsbirgðir víða um heim. Sumar ár ná ekki að renna til sjávar vegna þess að allt vatn þeirra er nýtt og grunnvatn fer einnig minnkandi sums staðar þar sem því er dælt upp hraðar en það endurnýjast.

Vatni er mjög misskipt milli svæða á jörðinni. Sums staðar eru til gnægtir vatns, annars staðar ríkir vatnsskortur. Nú á tímum er vatnsskortur fyrst og fremst staðbundinn. Talað er um vatnsskort þegar árlegar vatnsbirgðir þjóðríkja eru minni en 1000 m3 á mann. Miðað við þessa skilgreiningu má finna alls 12 lönd í Afríku með samtals um 250 milljónir íbúa sem búa við mikinn og varanlegan vatnsskort.

Árið 2050 mun vatnsskortur í einhverri mynd líklega hrjá flestar þjóðir heimsins.

Birt:
18. janúar 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Vatn í veröldinni“, Náttúran.is: 18. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/16/vatn-verldinni/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. apríl 2007
breytt: 18. janúar 2013

Skilaboð: