Álver á Bakka slegið út af borðinu
Náttúran.is fagnar því að áður fyrirhugað álver á Bakka við Húsavík hafi verið slegið út af borðinu. Reyndar er löngu ljóst að fyrirbærið var aldrei nema skýjaborgir fáfróðra stjórnmálamanna og gráðugra heimamanna, en nú er málinu s.s. lokið.
Þann 1. mars 2006 var fjallað um undirritun samkomulags álrisans ALCOA og ríkisstjórnar Íslands um að hefja hagkvæmnikönnun á því að reisa 250 þúsund tonna álver á Bakka, eins og að um happdrættisvinning fyrir Húsavík og alla landsmenn væri að ræða (sjá grein). Í raun var síðan ætlunin að fara í 460.000 tonna álver.
Það var síðan álrisinn sjálfur sem sá fram á að hann fengi ekki rafmagnið gefins og gæti ekki farið í eins stórar framkvæmdir, eins fljótt og hann vilidi. Það er vel, og þó fyrr hefði verið.
Það er nefnilega þannig að gegn þessum áformum hafa náttúruverndarsamtök á borð við Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Framtíðarlandið og margir fleiri, ekki síst öflugir einstaklingar barist um árahríð. Það hefur tekið sinn toll af fólki og margir eru langþreyttir á að vera sífellt að slökkva elda sem stjórnvaldið hefur blásið lífi í. Því má ekki gleyma nú, hvert hlutverk náttúruverndarfólks er í að opna blind augu valdsins og græðginnar á þenslutímum. Breytt stjórnskipun í landinu og ný stefna Landsvirkjunar hefur auðvitað sitt að segja líka en markviss fræðsla og viðvaranir náttúruverndarsinna voru aflið sem þurfti til að sú breyting gæti átt sér stað.
Náttúran.is hefur aldrei verið hrædd við að taka afstöðu með nátturunni og tók einnig virkan þátt í baráttunni, en hér á vef Náttúrunnar hafa birst ótal greinar þar sem fjallað er um álver á Bakka með einum eða öðrum hætti. Aldrei þó til að byggja undir þá draumsýn margra að verkefnið væri raunhæfur kostur. Þú getur skoðað sögu baráttunnar með því að slá inn t.d. „á Bakka“ hér í leitarvélinni ofarlega til hægri á síðunni. Þá koma upp 44 greinar. Í tengdum greinum sérð þú síðan alla sögu náttúruverndarbaráttunnar á Íslandi sl. 7 ár. Góða skemmtun!
Ljósmynd: Húsavík, úr Fréttablaðinu.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Álver á Bakka slegið út af borðinu“, Náttúran.is: 18. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/18/alver-bakka-slegid-ut-af-bordinu/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.