Náttúruleg leikföng eru þau leikföng oft kölluð sem framleidd eru úr náttúrulegum efnum. Oft eru náttúrulegu efnin þó sjálf mettuð aukaefnum og máluð eða lökkuð með óvistvænum og jafnvel skaðlegum efnum. Plastmýkingarefni svokölluð þalöt eru talin sérstaklega skaðleg heilsu barna þar sem þau eru í mörgum tilfellum lík hormónum í líkamanum og hafa því hormónatruflandi áhrif. Eldhemjandi efni og blýmagn yfir mörkum hefur einnig oft orðið til þess að leikfangaframleiðendur hafa þurft að innkalla milljónir leikfanga um allan heim.

Góð leikföng þurfa ekki alltaf að vera úr hreinum náttúrlegum efnum þó að þau geti verið það. Gerviefni geta verið tiltölulega jákvæð út frá umhverfissjónarmiðum ef að leikfangið er vandað og endist jafnvel kynslóð fram af kynslóð. Klassísk leikföng eins og Lego og Playmo hafa uppeldislegt gildi og eiga sterkan sess í nútímaþjóðfélagi. Börnum ætti því ekki að vera meinað að leika sér með þau. En leikfangabransinn gengur ekki bara út á það að framleiða heilsusamleg og uppeldislega jákvæð leikföng, hvað þá umhverfisvæn og langlíf.

Það er því margt sem ber að hafa í huga við val leikfanga fyrir börnin okkar. Leikföng eru oft algert drasl, þola ekki meðhöndlun barnsins og veita því engum gleði, hvorki gefanda né þyggjanda. Þau lenda fljótt í ruslinu og áhrif þeirra á umhverfið geta því aðeins verið neikvæð.

Heimatilbúin og einföld leikföng hafa hvetjandi áhrif á ímyndunaraflið, eitthvað sem börnin gera sjálf eða geta umbreytt. Pottar, sleifar, lyklar og annað úr daglegu umhverfi barnsins hefur löngum verið í uppáhaldi litlu barnanna. Einfaldar tuskur og kubbar, steinar og annað smálegt úr ríki náttúrunnar efla efnistilfinninguna og eru mikilvægur hluti uppeldis allra aldurshópa.

Hvað varðar umhverfisáhrif þá tryggja umhverfismerki á borð við Svaninn og Demeter t.a.m. að tekið sé fullt tillit til umhverfisáhrifa við framleiðslu vörunnar.

Evrópusambandið hefur eftirlit með efnainnihaldi leikfanga og vörutegunda almennt. Með nýrri löggjöf ber skylda til að skrá, ekki meta, öll efni sem eru seld innan sambandsins. Aðeins 5% af þeim hafa farið í gegnum einhverskonar hættumat. Þekking okkar á áhrifum efna á umhverfi og heilsu er því enn af mjög skornum skammti. Nýjar rannsóknir leiða nú oft í ljós að á markað hafa ratað leikföng með hættulegum efnum. Þau eru þá umsvifalaust innkölluð.

Leikföng sem markaðssetja á hér á landi eiga að vera CE-merkt. Á leikfanginu eða í notkunarleiðbeiningum sem því fylgir skal varað við þeirri hættu sem fylgir tilteknum leikföngum, ásamt upplýsingum um hvernig skuli brugðist við þeirri hættu. Leikföng eru merkt í samræmi við það aldursskeið sem þau henta fyrir. Þannig er hægt að sjá hvort að leikfang er hættulegt börnum á vissum aldri eða ekki. Á leikfanginu skal einnig vera nafn framleiðandans og merki ásamt heimilisfangi eða nafn og merki ábyrgðaraðila með heimilisfangi.

Neytendastofa hefur eftirlit með því að leikföng uppfylli kröfur um markaðssetningu leikfanga hér á landi. Neytendastofa upplýsir einnig reglulega á heimasíðu sinni um hættulegar vörur á markaði í Evrópu, þar á meðal leikföng. Á heimasíðu RAPEX, sem er tilkynningakerfi Evrópu um ólöglegar vörur á markaði er hægt að skoða hvaða ólöglegu vörur finnast á markaði í Evrópu.

Sjá upplýsingasíðu Neytendastofu um hættulegar vörur á markaði. 

Sjá tilkynningakerfi RAPEX.

Birt:
18. júlí 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Leikföng“, Náttúran.is: 18. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/25/leikfng/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. júní 2007
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: