Pappamassi - skemmtilegur grautur
Nei þetta er ekki heilagrautur heldur pappamassi. Það er einfalt og skemmtilegt að gera pappamassa.
Eins og við erum alltaf að hamra á hér á síðunni er rusl ekki bara rusl heldur hráefni sem hægt er að vinna aftur og aftur. Þú getur gert ýmislegt úr pappírsruslinu, t.a.m. búið til skál úr úr dagblöðunum sem safnast upp hjá þér. Pappamassauppskriftin er sáraeinföld:
Það sem til þarf er:
Eggjabakkar eða dagblöð.
Vatn og plastfata
1/2 pakki af ódýru veggfóðurslími (púður)
1 kg hveiti
- Dagblöð eða eggjabakkar rifnir og bleyttir upp í volgu vatni í fötu. Látið liggja í einn sólarhring. Hægt er að hræra í blöndunni af og til til að leysa blöðin betur upp. Sumir nota töfrasprota, hrærivél eða borvél með hræripinna.
- Blaðasúpan tekin uppúr fötunni og mesta vatnið látið leka af.
- Sett aftur í fötuna með blöndu af veggfóðurslími, hrært vel í. Hveiti bætt út í blönduna, en það er ekki nauðsynlegt. Tilbúið til mótunar í form sem massinn getur fengið að þorna í eða á.
Að gera skál í skál er eitt það einfaldasta en auðvitað er hægt að gera eða finna alls konar hluti sem form fyrir massann en hafa ber í huga að það þarf að geta haldið utan um blautan massann og þolað bleytu í lengri tíma án þess að leysast upp eða bólgna. Hægt er að láta þunna plastfólíu í það form sem pappamassinn á að þorna í.
Auk dagblaðapappírs og eggjabakka er t.d. tilvalið að nýta afganga af skrautpappír, poka eða öskjur sem þú situr uppi með eftir jól eða afmæli. Eða bæta jurtum eða öðrum aðskotahlutum í pappamassann. Til að lita massann er annað hvort hægt að setja lit út í blönduna sjálfa eða lita þegar þurrt er orðið. Lakka síðan og skreyta af hjartans list.
Góða skemmtun!
Efri myndin er af http://endweb.de/ en sú neðri af http://belladia.typepad.com.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Pappamassi - skemmtilegur grautur “, Náttúran.is: 2. september 2011 URL: http://nature.is/d/2010/07/21/pappapmassi-skemmtilegur-grautur/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. júlí 2010
breytt: 2. september 2011