Á visir.is í dag skjóta ORF piltarnir upp kollinum í tveimur fréttum. Í annarri segja þeir frá því að lögregla hafi hætt rannsókn á meintum skemmdarverkum á tilraunareit þeirra við Gunnarsholt.

Í hinni er tilkynnt um að fyrirtækið hyggist fara í „stórfellda akuryrkju“ með erfðabreytt bygg en umhverfisráðherra síðan kennt um skemmdarverk í þeirra garð.

Báðar greinarnar bera keim þess að þeir ORF félagar hafi duglega PR- ráðgjafa og greiðan aðgang að fjölmiðlum í þeim tilgangi að höfða til vorkunnsemi óupplýsts almennings. Jafnvel framleiðsla þeirra á erfðabreyttum snyrtivörum (Sif Cosmetics) fékk umfjöllun fjölmiðla eins og um yngingarlyf aldarinnar væri að ræða.

Það liggur ekki á nokkurn hátt fyrir að þau skemmdarverk sem getið er um í fyrrnefndu greininni hafi verið unnin af öðrum en Kára. Ekki þeim erfðagreinda heldur hinum sem stýrir veðrum og vindum. Það er hins vegar margt sem bendir til þess að ORF hafi ekki staðið við þau öryggisskilyðri sem þeir settu sjálfum sér. Staðurinn var svo leynilegur að ekki einu sinni eftirlitsaðilinn, Umhverfisstofnun, vissi hvar ætti að leita. Eitt er þó víst  að fuglar og smádýr áttu greiðan aðgang að hinu erfðabreytta byggi og hafa því þannig getað borið það hvert sem er. Engar grunnrannsóknir liggja né lágu fyrir sem nota má til að meta áhrif þessarar útiræktunar erfðabreytts byggs í náttúru landsins.

En í nýjum lögum (sem reynda biðu umfjöllunar og samþykkis á þingi þegar hið umdeilda leyfi fyrir þessari tilraun var veitt) er réttur almennings til aðkomu að leyfisveitingum aukinn. En ORF líftækni hf tóks tvívegis að fá leyfi til tilraunaræktunar utandyra án þess að almenningi og jafnvel hlutaðeigandi aðilum væri kunnugt um það. Í þriðju atrennu tókst tveimur nefndarmönnum að knýja fram kynningu fyrir almenning í Gunnarsholti, með nokkurra daga fyrirvara. Almenningur sem mætti á fundinn í Gunnarsholti krafðist síðan víðtækari og betur kynntrar kynningar í höfuðstaðnum. Sá kynningarfundur var haldinn á Grand hóteli og var vægast sagt eldheitur. Í frétt á vef Umhverfisstofnunar var talað um fundinn sem „líflegan“. Viðstöddum var þó vel ljóst að hér væri annað og meira en „líflegar“ umræður viðhafðar. Í kjölfar fundarins fór af stað hrina blogg- og blaðagreina sem báru keim af nornaveiðum og var ætlað að þagga niður í því áhrifafólki sem ekki klappaði með í kórnum. Sá tími hlítur að koma að rannsókn krosstengslanna milli fyrirtækisins ORF líftækni hf annars vegar og nýsköpunar- og háskólasamfélagsins, jafnvel stjórnmálaflokkanna hins vegar, verði nauðsynleg, í nafni gegnsæis og tiltektar í samfélaginu.

ORF líftækni hefur stóra drauma um að framleiða erfðabreyttar lífverur í stórum stíl utandyra en það vekur ýmsar spurningar. Siðferðilegar sem líffræðilegar. Ekki liggja fyrir nægar rannsóknir á áhrifum erfðabreytts gróðurs á líf smádýra en nýleg rússnesk rannsókn benti til fylgni erfðagalla og ófrjósemi í þriðju kynslóð nagdýra. Ræktun innandyra í stýrðu og vernduðu umhverfi skapar ekki sömu óvissu og ætti að vera á færi ORF þar sem verðið sem ku fást fyrir framleiðslu þeirra er gríðarlegt. Það er mál margra að þessi mál verði tekin fyrir á almennum vettvangi og rædd á faglegan hátt án svívirðinga ORF í garð þeirra vísindamanna og leikmanna sem hafa efasemdir eða aðrar hugmyndir en fyrirtækið og launþegar þess.

Grafík: Biohazard merkið.

Birt:
10. júlí 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Orf við sama heygarðshornið“, Náttúran.is: 10. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/10/vantar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. júlí 2010

Skilaboð: