Ætihvönn [Angelica archangelica]

Lýsing: Ætihvönnin er stórgerð og hávaxin, stundum mannhæðar há. Hún safnar næringu í rót nokkur ár áður en hún blómgast. Rætur eru stungnar undan jurtum sem ekki hafa blómgast enn. Algengust nálægt sjó, við læki, í hlíðarhvömmum inn til landsins og í gömlum kálgörðum. Geithvönn er svipuð ætihvönn tilsýndar, en algerlega óæt. Endasmáblað ætihvannar er þrískipt og gulhvít blómin mynda litla sveipi sem raðast í nærri kúlulaga þyrpingar, stórsveipi. Mikill ilmur er af öllum hlutum ætihvannar.

Árstími: Hvannafræ eru tekin í júlí-ágúst. Hvannarætur í maí eða september-október.

Tínsla: Fullþroskaðir “fræhausar” skornir af áður en fræið þornar. Ef nota á blöð eða stöngul er hvönnin skorin fyrir blómstrun.

Rótin er tekin með stunguskóflu að vori áður en vex upp af henni, eða að hausti eftir að plantan er fallin.

Meðferð: Fræ eru þurrkuð í bökkum. Þeim er mjög hætt við að mygla og því þarf góða loftræstingu og mikið að hreifa þau. Gott að þurrka þau á fræhausnum, fræið hrynur þegar það þornar. Rætur eru hreinsaðar, skornar að endilöngu og þræddar á band. Þorna hangandi.

Ljósmynd: Ætihvönn, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
July 25, 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Erlingur Filippusson „Söfnun og meðferð ætihvannar“, Náttúran.is: July 25, 2013 URL: http://nature.is/d/2010/05/28/sofnun-og-medferd-aetihvannar/ [Skoðað:April 13, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: May 28, 2010
breytt: Jan. 1, 2013

Messages: