Fjallagrös [Cetraria islandica] eru algeng um allt land og hafa verið mikilvæg björg í bú hér áður fyrr enda góð til matar og lækninga. Grösin voru soðin í mjólk og heitir það grasamjólk. Grösin vour einnig notuð í brauðbakstur og í dag eru Fjallagrasabrauð m.a. bökuð í Brauðhúsinu í Grímsbæ auk þess sem fyrirtækið Íslensk fjallagrös ehf þróa og framleiða vörur s.s. Fjallagrasa hálsmixtúru m. hunangi og piparmintu og Fjallagrasa hálsmixtrúru m. lakkrís og Fjallagrasa magamixtúra. Auk þess framleiðir fyrirtækið fjallagrasahylki, „Soprano“ hálstöflur og snafs úr fjallagrösum.

Fyrirtækið Íslensk hollusta (hér áður Hollusta úr hafinu) framleiðir einnig nokkrar vörur úr fjallagrösum.

Um lækningamátt fjallagrasanna segir Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir grasalæknir eftirfarandi: „Mýkjandi og græðandi fyrir meltingarveg og öndunarfæri, og einnig græðandi útvortis. Fjallagrös eru einnig mjög nærandi og því hin hollasta fæða.“ Um notkun segir hún: „Fjallagrös eru eitt albesta lyfið við sárum og bólgu í meltingarfærum, þau minnka ertingu frá sýrum í maga og græða sára slímhúð. Fjallagrös hafa löngum þótt hafa góð áhrif á öndunarfæri, einkum ef fólk þjáist af þurrum hósta. Þá er gott að leggja bakstra með fjallagrösum við sár og þurra exemhúð.“

Myndin er tekin af fjallagrösum innan um ljónslappa [Alchemilla alpina], aðalbláberjalyng [Vaccinium myrtillus] og mosa á Hellisheiði þ. 26. 08. 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
4. júlí 2010
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fjallagrös í nútíð og þátíð“, Náttúran.is: 4. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/fjallagros/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 4. júlí 2010

Skilaboð: