Hans og Grétu húsGarðyrkju- og blómasýningin „Blóm í bæ“ er nú haldin í  annað sinn, í Hveragerði, en með sýningunni í fyrra var í fyrsta sinn á Íslandi haldin heildstæði garðyrkjusýning sem tók mið af faginu í heild sinni. Garðplöntur, afskorin blóm, skrúðgarðyrkju, blómaskreytingar, landslagsarkitektúr, grænmetisræktun og annað sem tengist græna geiranum á Íslandi mátti sjá á sýningunni. Ýmsar uppákomur voru í gangi alla helgina í blíðskaparveðri, en um 40.000 gestir sóttu hátíðina heim.

Á síðasta ári tók Náttúran.is þátt í sýningunni með bás í íþróttahúsinu auk þess sem nýr þjónustuliður „Eldhúsgarðurinn“ var kynntur með raunverulegum lifandi Eldhúsgarði í Skrúðgarðinum. Í ár munum við vera aftur með bás í íþróttahúsinu þar sem við kynnum gestum okkar starfsemi.

Mikið hefur gengið á í undirbúningi fyrir sýninguna og nú, kvöldið fyrir opnunardaginn, er Hveragerðisbær eins og klipptur út úr ævintýri. Gamalt hrörlegt hús við grunnskólann hefur fengið á sig Hans og Grétu útlit, garðar í bænum eru skreyttir sem aldrei fyrr, hringtorg bæjarins og allar götur, göngustígar og ljósastaurar eru skreyttar í takt við titil sýningarinnar „Börn og ævintýri“.

Það er ótrúlegt að sjá hve samstillt átak margra fagaðila getur komið í framkvæmd. Eins hefur fjöldi sjálfboðaliða komið að verki og fangar á Litla Hrauni lagt til ýmsar fígúrur og blóm til að skreyta bæinn með.

Samstarfsaðilar Hveragerðisbæjar um sýninguna Blóm í bæ eru: Hveragerðisbær, Samband Garðyrkjubænda og undirfélög, Landbúnaðarháskólinn að Reykjum, Félag Íslenskra Landslagsarkitekta, Félag blómaskreyta, félag skrúðgarðyrkjumeistara, Garðyrkjufélag Íslands, Grænn markaður og Sölufélag Garðyrkjumanna.

Elfa Dögg Þórðardóttir, umhverfis- og mannvirkjafulltrúi Hveragerðis á heiðurinn að skipulagi sýningarinnar. Sjá nánar um Blóm í bæ á www.blomibae.is.

Mynd: Hluti af Hans og Grétu húsinu fyrir framan íþróttahúsið við Grunnskóla Hveragerðis, ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
June 24, 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Blóm í bæ í Hveragerði“, Náttúran.is: June 24, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/24/blom-i-bae-i-hveragerdi/ [Skoðað:July 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: June 25, 2010

Messages: