Rabarbía rabarbarakaramellur og tvær tegundir af rabarbarasultum eru nú komnar í sölu hér á Náttúrumarkað en bændurnir á Löngumýri á Skeiðum, þau Kjartan Ágústsson og Dorothee Lubecki framleiða vörurnar. Rabarbaraakrarnir á Löngumýri eru lífrænt vottaðir af vottunarstofunni Túni og er rabarbarinn undirstaðan í öllum vörum Rabarbía. Vörurnar sjálfar bera ekki lífræna vottun enn sem komið er en stefnt er að því að sulturnar verði vottaðar því í þær er notaður hrásykur og engin E-aukaefni.

Rabarbía rababarakaramellan er eitt af þeim vöruþróunarverkefnum sem þróað var í samvinnu við Listaháskóla Íslands/„Stefnumót hönnuða og bænda“, Matís og bakarameistarann Övar Birgisson. Listaháskólanemendurnir Arna Rut Þorleifsdóttir, Kristín Þóra Sigurðardóttir og Stefanie Silberman áttu stefnumót við bændurna Dorothee og Kjartan á Löngumýri sem einn bæja á Íslandi ræktar rabarbara til sölu og framleiðslu. Fram til þessa hefur rabarbarinn farið alfarið í sultugerð en nú er orðin breyting þar á þó að sulturnar haldi áfram að skipa stóran sess í framleiðslunni. Hönnunarnemarnir kynntu tvær girnilegar rabarbara- vörur á Matarmarkaðinum þ. 14. mars sl. (sjá grein), annars vegar rabarbarakaramelluna og hins vegar 100% hreinan rabarbarasafa þar sem engu er bætt við, hvorki sykri né vatni né nokkru öðru.

Rannís styrkti verkefnið Stefnumót hönnuða og bænda duglega þannig að verkefnin þyrftu ekki öll að vera lögð í salt heldur rata áfram á framleiðslubrautina. Rabarbarakaramellan var eitt af þeim verkefnum sem heppnuðust svo vel að frekari vöruþróun á hugmyndinni féll bændunum á Löngumýri í skaut.

Í kjölfarið var fullbúið framleiðslueldhús innréttað á Löngumýri og framleiðsla hófst á haustdögum. Stefnt er að áframhaldandi vöruþróun og er aldrei að vita hvaða framleiðslu bændurnir á Löngumýri og hönnuðir þeirra koma næst með á markað.

Rabarbarakaramella:

Rabarbarakaramellan byggir á æskuminningu um að borða rabarbara með sykri úr glasi úti í garði á fögrum sumardegi. Hráefnin eru þau sömu en framsetningin er önnur og bragðið kemur skemmtilega á óvart. Sæt karamella en jafnframt skín súrt rabarbarabragðið sterkt í gegn og geymist lengi á tungunni eftir að karamellunni er kyngt. Karamellan er óvenju stór, í laginu eins og rabarbarastöngull. Hún er fullkomin gjöf til að taka með í matarboð eða garðveislu, deila með besta vini sínum, eða eiga hana alveg út af fyrir sig og borða hana eins og rabarbarastöngulinn í æsku.

Sjá Rabarbía rabarbarakaramellu, Rabarbía rabarbarasulta með jarðarberjum og engifer og Rabarbía rabarbarasulta með aðalbláberjum hér í íslensku búðinni á Náttúrumarkaði.

Sjá staðsetningu Löngumýri o.fl. upplýsingar um býlið á Grænum síðum.

Birt:
10. desember 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Rabarbía vörurnar komnar á Náttúrumarkað“, Náttúran.is: 10. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/07/rabarbia-komin-natturumarkao/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. desember 2008
breytt: 26. janúar 2011

Skilaboð: