Ylströndin í Nauthólsvík flaggar Bláfánanum sjöunda árið í röð
Ylströndin í Nauthólsvík fékk í gær endurnýjað leyfi til að flagga Bláfánanum en Ylströndin fékk fánann fyrst árið 2003 en endurnýja þarf umsóknina árlega.
Bláfáninn (Blue flag) er umhverfismerki sem er virkt í 41 landi og er eitt af verkefnum FEE (The Foundation for Environmental Education). Sjá vef Blue Flag Programme. Yfir 3450 baðstrendur og smábátahafnir flagga Bláfánanum víða um heim. Hér á landi hafa sex staðir hlotið þessa viðurkenningu, þ.e. Arnarstapahöfn, Hafnarhólmi á Borgarfirði eystri, Stykkishólmshöfn, höfnin á Suðureyri og baðstrendurnar Bláa lónið og Ylströndin í Nauthólsvík.
Bláfánaverkefnið er helgað menntun til sjálfbærrar þróunar og hefur viðurkenningin mikið gildi fyrir svæði sem leggja áherslu á ferðaþjónustu. Á stöðum þar sem Bláfáninn blaktir við húni geta gestir gengið út frá því sem vísu að hreinlæti, öryggismál, gæði vatns og umhverfisfræðsla séu til fyrirmyndar.
Landvernd er umboðsaðili Bláfánans hér á landi. Sjá nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð um Bláfánann á vef Landverndar.
Sjá alla Bláfánaleyfishafa á Íslandi hér á Grænum síðum.
Efri mynd: Sigrún Pálsdóttir verkefnisstjóri Bláfánans og Björgólfur Thorsteinsson formaður Landverndar afthentu Árna Jónssyni starfsmanni ÍTR fánann í blíðviðrinu í gær. Neðri mynd: Nokkrar stelpur sem nutu góða veðursins í Nauthólsvík í gær hjálpuðu til við að draga fánann að húni. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ylströndin í Nauthólsvík flaggar Bláfánanum sjöunda árið í röð“, Náttúran.is: 27. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/27/ylstrondin-i-nautholsvik-flaggar-blafananum-sjound/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.