Þann þrettánda desember kl. 15:00 verður klukkum í ýmsum kirkjum landsins hringt til að minna á umhverfisvána vegna hlýnunar andrúmsloftsins. Í tilefni af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn í desember  verður kirkjuklukkum um allan heim hringt 350 sinnum til að minna á þá umhverfisvá sem steðjar að jarðarbúum vegna hlýnunar andrúmsloftsins.

Hér á landi verður kirkjuklukkum hringt klukkan þrjú þennan dag víða um land. Hringingin á að tákna þrennt:

  1. Þá vá sem steðjar að mannkyni í lofslagsmálum vegna hlýnunar andrúmsloftsins;
  2. Vonina sem kristið fólk um allan heim vill minna á frammi fyrir því er ógnar öllu lífi
  3. Athafnir, sem þarf að grípa til svo að snúa megi þessari óheillaþróun við.
Af hverju 350 sinnum?

Það er álit margra vísindamanna og loftslagsfræðinga að magn koltvíildis í andrúmsloftinu megi ekki fara yfir 350 hluta á móti milljón (350 prm). Ef magnið er komið upp fyrir það hlýnar andrúmsloftið með þeim afleiðingum að jöklar bráðna og heimshöfin hækka. Fyrir 200 árum var magn koltvíildis í andrúmsloftinu  275 hlutar af milljón en nú þegar er það komið upp í 387 hluta. Það merkir að minnka þarf losun koltvíildis úr andrúmsloftinu frá því sem nú er.

Sunnudaginn 13. desember þegar loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna stendur sem hæst í Kaupmannahöfn verður klukkum Frúarkirkju hringt 350 sinnum við lok guðsþjónustu þar svo og í mörgum kirkjum í Danmörku. Reyndar hefst þessi táknræna athöfn á Fiji-eyjum í Kyrrahafi klukkan þrjú að staðartíma þar sem blásið verður í kuðunga sem eru  hefðbundin hljóðfæri eyjaskeggja. Síðan berst hljóðið í vesturátt, klukkum hringt, blásið í lúðra, barðar bumbur eða slegið á allt eftir venju hvers lands um sig.

Með þessari táknrænu athöfn vilja kristnar kirkjur um allan heim taka undir frumkvæði dönsku kirknanna og vara við umhverfisvánni en um leið minna á þá von sem felst í því að þjóðir heims grípi til nauðsynlegra athafna til að draga úr áhrifum manneskjunnar á náttúruna.

Hægt er að sýna stuðning við klukknahringinguna á Facebook.

Birt:
11. desember 2009
Höfundur:
Þjóðkirkjan
Tilvitnun:
Þjóðkirkjan „Klukkum um allan heim hringt 350 sinnum til að minna á lofslagsbreytingar“, Náttúran.is: 11. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/11/klukkum-um-allan-heim-hringt-35-sinnum-til-ao-minn/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: