Á Sjávarútvegssýningunni sem haldin verður 2.-4. október nk. mun íslenskt umhverfismerki fyrir fiskafurðir verða kynnt til leiks. Merkið á að vísa til íslensks uppruna afurðanna og ábyrgra fiskveiða. Heimilt verður að nota það á öllum mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Merkið má einnig nota á afla íslenskra fiskiskipa úr deilistofnum sem lúta heildarstjórnun. Frá þessu er skýrt í frétt frá Fiskifélagi Íslands.

Síðan sé ætlunin að umbreyta þessu „merki“ í „vottun“ með tíð og tíma og fá óháðan aðila til að votta það. Slíkt kallast þá þriðja aðila vottun og er það eina sem mark er á takandi. Ekki fylgir sögunni hvort að vonast sé til að merkið eigi að koma í staðinn fyrir MSC* vottun en vöntun á þeirri vottun hefur verið að loka mörkuðum fyrir íslenskan fisk undanfarið.

Svo virðist sem að íslenska umhverfismerkinu sé ætlað að bjarga hlutunum fyrir horn og vonast til að íslenskur uppruni einn og sér bjargi málum að sinni. Hugmyndin virðist í fljótu bragði eiga að gera það sama og merking grænmetis frá Sölufélagi garðyrkjumanna þ.e. að gefa til kynna að varan sé íslensk. Það er þó alls óvíst að það að fiskurinn sé merktur Íslandi virki eins á erlendum mörkuðum og íslenska grænmetið hér heima. Þeir sem ekki eru að taka við íslenskum afla í dag vegna vöntunar á sjálfbærnisvottun vita auðvitað að fiskurinn héðan sé íslenskur, en það dugar bara ekki til.

MSC (Marine Stewartship Council)* er þekktasta umhverfismerkið í sjávarútvegi. „Merki MSC vottar að fiskurinn komi frá stofnum sem nýttir eru á sjálfbæran hátt. Þar er leitast við að horfa heildrænt á fiskveiðar, bæði ástand stofnsins og aðferðirnar sem notaðar eru við veiðar. Jónas R. Viðarsson benti á í grein í Viðskiptablaðinu í júlí sl. (sjá grein)að talsverðar umræður hafi nú þegar farið fram meðal allra annarra Norðurlandaþjóða en Íslendinga, þar á meðal Grænlendinga og Færeyinga, þar sem afstaða var tekin um að byggja „ekki“ upp eigin merki heldur velja MSC *.

*Marine Stewartship Councileru óháð alþjóðleg samtök sem starfa ekki í hagnaðarskyni og vinna að verndun sjávar og sjávarafurða gegnum vottunarkerfi. Samtökin votta sjávarútgerðir og þær sjávarafurðir sem standast staðla þeirra.
Þessir staðlar og sú aðferðarfræði sem þeir byggjast á tryggja að hver einasti þáttur í framleiðsluferli þeirra sjávarafurða sem eru merktar með MSC merkinu sé rekjanlegur, hafi staðist skoðun og komi upphaflega frá vottaðri, sjálfbærri útgerð. Sjá nánar á vef MSC.

Birt:
15. september 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Íslenskt merki, hvað sem tautar og raula“, Náttúran.is: 15. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/15/islensk-vottun-hvao-sem-tautar-og-raula/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. ágúst 2012

Skilaboð: