Endurvinnsla um jól og áramót
Um jól og áramót safnast að jafnaði mikið upp af rusli á heimilum landsins. Mikið af því má þó endurvinna, þó ekki allt. T.a.m. flokkast jólapappír með glimmeri og málmögnum ekki undir venjulegt pappírsrusl og verður að flokka sem óendurvinnanlegt sorp. Sjá meira um jólagjafir og umbúðirnar.
Í flestum stærri bæjarfélögum eru jólatrén sótt á ákveðna söfnunarstaði eftir þrettándann. Þau eru síðan kurluð og nýtt t.d. í moltugerð. Sjá meira um umhverfisáhrif jólatrjáa.
Við skilagjaldsskildum umbúðum s.s. flöskum og dósum taka móttökustöðvar Endurvinnslunnar hf. um allt land. Þú finnur þær allar hér á Endurvinnslukortinu undir Flokkar/Flöskur og dósir. Einnig á Endurvinnslukorts-appinu okkar fyrir iPhone og iPad. Meira um endurvinnslu og moltu almennt hér í Húsinu og umhverfinu en þar er líka allt um umhverfis- og heilsutengda þætti hvers hlutar í daglegu lífi okkar. Húsið er einnig í app-útgáfu bæði fyrir iOS og Android.
Nú stendur hinn árlegi atburður „sprengjum gamla árið í tætlur“ fyrir dyrum. Sprengigleði landsmanna virðist aukast ár frá ári og hafa peningar eða mengun þar engin áhrif á. Talið er að hér á landi verði skotið á loft þúsund tonnum af sprengiefni í ár.
Í stóra samhenginu eru áhrifin gífurlega neikvæð fyrir umhverfið og er í raun ófyrirgefanleg forheimskun að úða þessum eiturefnum út í andrúmsloftið, jarðveginn og í lungun á okkur. En viljinn til að sprengja og hrökkva í kút eitt og eitt augnarblik í senn og gapa af undrun og aðdáun yfir ljósarósum á lofti einn dag á ári, er kannski skárra en að sprengiþörfin brjótist út á enn neikvæðari hátt, út allt árið eða í stríðsrekstri.
En sprengiþörfin er óumdeilanleg staðreynd og mun Náttúran.is lítið hafa um það að segja annað en upplýsa um áhrif og afleiðingar og ekki síst um leiðir til að halda umhverfisáhrifum í skefjum eins og kostur er. Aukin umhverfisvitund á síðan í framtíðinni vonandi eftir að leiða til þess að flugeldar valdi minni umhverfisáhrifum og fólk kjósi frekar að sprengja minna og velja umhverfis- og heilsusamlegri leiðir til að fagna nýju ári.
Þar sem að sú draumastaða er ekki veruleiki dagsins í dag getum við aðeins bent á leiðir til að velja minna skaðlega áramótasiði og að hjálpa okkur að flokka og endurvinna leifarnar af því skaðlega rétt. Ekki er æskilegt setja gamlar rakettur hvað þá skottertur í ruslatunnurnar. Meðhöndlun sprengjuruslins er lítið eitt mismunandi milli sveitarfélaga en í heildina litið eru skilaboðin sú að sprengjurnar fari í venjulegt heimilissorp, ekki blátunnu eða endurvinnnslutunnur.
Sjá hér á Endurvinnslukortinu hver tekur við hvaða tegund af rusli, hvar á landinu.
Grafík: Efri mynd; jólatré og umbúðirnar, neðri mynd; líf vex af dauðu, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Endurvinnsla um jól og áramót“, Náttúran.is: 27. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2007/12/22/endurvinnsla-um-jol-og-aramot/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. desember 2007
breytt: 27. desember 2014