3ja ára afmæliðÍ dag sunnudaginn 25. apríl, er dagur umhverfisins haldinn hátíðlegur á Íslandi í tólfta sinn, en í ár er dagurinn tileinkaður líffræðilegri fjölbreytni. Þennan dag heldur vefurinn Náttúran.is upp á þriggja ára afmæli sitt og opnar um leið nýja útgáfu Náttúran.is 2.0 en Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra mun opna nýja vefinn við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu kl. 12:00.

Þá verða þrjú ár liðin frá því að þáverandi umhverfisráðherra opnaði vefinn við athöfn á Kjarvalsstöðum. Síðan þá hafa þrjár konur sest í stól umhverfisráðherra og mikil átök átt sér stað í þjóðfélaginu. Á opnunarárinu var útrásin á fullri ferð og fáir að hlusta á tuð um sjálfbæran lífsstíl og nægjusemi í neyslu.

En sem betur fer er tónninn annar í dag og nauðsyn þess að hlífa móður jörð, sem við eigum allt undir, orðin flestum ljós. En til að breyta heiminum verður maður að byrja á sjálfum sér. Eitt af meginmarkmiðum vefsins Náttúran.is er og hefur frá upphafi verið; að móta ábyrgt og óháð svið fyrir „alla“ sem eitthvað hafa fram að færa á sviði umhverfismála, stunda umhverfisfræðslu á mannamáli og leiðbeina um vistvæn innkaup. Til þess höfum við þróað fjölda verkfæra s.s. Grænar síður, Grænt kort yfir Ísland, Endurvinnslukortið, Náttúrumarkaðinn o.m.fl.

Á nýja vefnum Náttúran.is 2.0 höfum við endurskrifað vefinn frá grunni og tekið til í allri uppbyggingu vefsins. Náttúran.is 2.0 inniheldur nokkra nýja liði og enski hluti vefsins er orðinn yfirgripsmeiri og meginefni s.s. Grænar síður og Grænt kort komin á þriðja málið, þýsku. Af nýjum liðum má nefna; Vistvæn innkaupaviðmið, Náttúruspjall, nýtt viðmót Náttúrumarkaðarins og vöruleit þar sem hægt er að þrengja leitina eftir framleiðanda og vottunum. Einnig vinnum við að gerð Græns bókhalds fyrir heimili og smærri fyrirtæki sem við munum virkja hér á vefnum innan tíðar.

Að gerð vefsins hefur komið hópur sérfræðinga á ýmsum sviðum, eða rúmlega tuttugu manns. Einnig hefur ríkissjóður, ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki, einstaklingar og sjóðir lagt verkefninu lið með fjárstuðningi, hlutafé og birtingu auglýsinga en án þeirra væri ekki hægt að reka vefinn út frá þeirri samfélagslegu hugsjón sem hann byggir á.

Aðstandendur Náttúrunnar eigja sér von um að í þeim þjóðfélagsbreytingum sem nú eiga sér stað muni skynsemi, virðing við náttúrunaog auðlindir hennar og aðlögun lífshátta okkar til sjálfbærrar sambúðar við land og haf verða leiðarljós leiðtoga okkar og kappsmál þjóðarinnar allrar. Þeirri þróun munum við af öllum mætti leggja lið með því að gefa yfirsýn á allt það sem gott er gert í landinu.

Grafík: Þriggja ára afmælisboð Náttúrunnar, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is

Birt:
25. apríl 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran heldur upp á þriggja ára afmælið og umhverfisráðherra opnar nýjan vef“, Náttúran.is: 25. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/23/natturan-heldur-upp-thriggja-ara-afmaelid-og-opnar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. apríl 2010
breytt: 25. apríl 2010

Skilaboð: