Að rækta garðinn sinn getur verið bæði einfalt og flókið en hugmyndin að Eldhúsgarðinum hér á Náttúran.is er að koma skipulagi á hugmyndina þannig að útfærslan verði sem allra einföldust og skemmtilegust. Þó að skipulagningin sem slík geti auðvitað orðið svolítið þrúgandi og virki stíf á stundum er það alveg örugglega einfaldari leið en að misreikna sig í garðinum sjálfum og gefast upp að lokum. Það er því með ráðum gert að skipuleggja út í eitt og svo getur hver og einn auðvitað ráðið því hvaða Eldhússgarðsráð hann tekur í sátt og hver ekki.

Oft getur verið gott að hafa garðinn alveg villtan og pota niður hinu og þessu eftir því sem plöntur rata til manns og fræpokar finnast í geymslunni eða í rekkanum í blómabúðinni. Það geta þeir þó aðeins gert sem nóg hafa af einhverju ef ekki öllu af eftirtöldu; plássi, peningum og tíma. Með tilraunastarfsemi og óheftu athafnafrelsi getur safnast upp ómetanleg reynsla milli ára. En fyrir þau okkar sem vantar eitthvað af plássi, tíma og peningum og hafa það markmið að sá og uppskera ætilegt í eldhúsið í sumar og haust vilja kannski nota skipulag sem nýtir plássið vel og gefur meiri yfirsýn á hvað hægt er að rækta og uppskera. Eldhúsgarðurinn er hugsaður til þess.

Fyrsta skrefið í öllu sem við gerum er auðvitað að fá hugmyndina sjálfa. Fyrir þá sem vilja koma sér upp ræktunarreit er hugmyndin sú að rækta, næsta hugmynd er kannski að rækta mikið eða lítið og upp í hugann koma plöntutegundir sem smakkast vel og fullnægja einhverri nostalgískri eða tilfinningalegri þörf. Um að gera að fullnægja þeim. En hvort sem praktík, tilfinningar eða fagurfræði stjórna ferð þarf að ákveða hvaða plöntur skal rækta. Síðan má mæla plássið sem fyrir hendi er í garðinum og teikna upp og skrifa lista yfir jurtirnar sem hugmyndin er að reyna að rækta.

Í Eldhúsgarðinum miðum við við fermeter sem stærðareiningu og út frá fermetranum getum við bæði reiknað út hve mikið af hverri plöntu passar á reitinn og síðan hve margir fermetrar þurfa að vera í Eldhúsgarðinn okkar. Til þess að sjá þetta betur höfum við gert teikningar þar sem hægt er að sjá hve margar plöntur af hverri tegund passa á fermeterinn.

Dæmi:

Þar sem Eldhúsgarðurinn gerir ráð fyrir lífrænni ræktun miðar vaxtarrýmið alltaf við lífræna ræktun. Gulófur taka 20x20cm pláss og því passa 23 gulrófur á m2. Gulrætur taka 3x15cm pláss og því passa 192 gulrætur á m2.

Hvað reiknar þú með að þurfa mikið af gulrótum og gulrófum í þitt eldhús? Ef þú þarft nokkuð minna en fermeter þá veistu það og ert komin af stað í að skipuleggja Eldhúsgarðinn þinn.

Til að skoða Eldhúsgarðinn smelltu hér.

Til að skoða sáðalmanakið smella hér.

Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
13. maí 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Eldhúsgarðurinn - hugmynd og framkvæmd“, Náttúran.is: 13. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2009/05/26/eldhusgarourinn-hugmynd-og-framkvaemd/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. maí 2009
breytt: 13. maí 2013

Skilaboð: