Sú goðsögn hefur því miður orðið langlíf að umhverfisstarf sé kostnaðarsamt, það sé dýrt að vera umhverfisvænn og fyrirtæki hafi einungis ráð á að vera umhverfisvænt þegar vel árar. Ef hins vegar sé skoðað hvernig fyrirtæki sem eru að vinna vel að umhverfismálum geta nýtt sér umhverfisstarf þá kemur í ljós hið gagnstæða, umhverfisstarf er hagkvæmt.

Ein helsta orsök þeirra umhverfisvandamála sem samfélagið á við að stríða stafar af sóun verðmæta og að fyrirtæki og neytendur eru ekki látnir borga raunkostnað fyrir þær vörur og þjónustu sem þeir eru að nota. Umhverfisstarf miðar fyrst og fremst að því sem hægt er að kalla visthagræði. Með því er átt við að fyrirtækin vilja auka framlegð sína (og samfélagsins) án þess að auka álagið á umhverfið eða að framlegð samfélagsins verður að aukast meira en álagið á umhverfið.

Margt af því sem við gerum í dag er í raun afskaplega óhagkvæmt. Á hverjum degi erum við að fara illa með auðlindir og borgum fyrir það. Úrgangur eins og málmar, plast, timbur, gler o.s.frv. er ekkert annað en auðlindir á röngum stað. Á Íslandi erum við að borga fyrir að urða úrgang á meðan þetta er í raun verðmæti fyrir úrgangsfyrirtæki. Verð á flestum náttúruauðlindum fer hækkandi. Samtímis er vakning í þá átt að fólk og fyrirtæki eigi að greiða fyrir þann umhverfiskostnað sem þau valda. Gámaþjónustufyrirtæki eru farin að taka upp stigskipta gjaldskrá þar sem gjaldið fer eftir flokkum. Dýrasti flokkurinn er yfirleitt óflokkað. Með því að flokka eru fyrirtækin hins vegar farin að spara fjármagn. Þetta er tilhneigingin í dag og á bara eftir að aukast.

Hvað er eðlilegt við það að nýta einungis 20-40% af auðlegðum sem maður er að nota? Þetta er í raun dæmið með bensín og díselbíla. Díselbíllinn er að vísu töluvert hagkvæmari út frá brennslusjónarmiði (lægri eldsneytisnotkun á 100 km) en sambærilegur bensínbíll. Vandamálið er hins vegar að dieselbíllin nýtir einungis um 40% af orkunni í olíunni. Afgangurinn er óþarfa eyðsla sem fer í að hita upp umhverfið.

Umhverfismál snúast um að minnka eldsneytis- og orkunotkun. Fyrir fyrirtæki sem eru með bílaflota til almennra vinnu, útkeyrslu eða fyrir annað starfsfólk er töluvert að vinna á að minnka til dæmis eldsneytisnotkun um 10%. Með skipulögðu umhverfisstarfi geta fyrirtæki yfirleitt náð töluverðum árangri bara á að hugsa upp á nýtt hvað þau eru að gera. Einföld leið er til dæmis að senda alla bílstjóra á námskeið í vistvænum akstri (vistakstri) og halda nákvæmt eldsneytisbókhald. Bara þetta sparar yfirleitt um 10-15% af eldsneytiskostnaði fyrirtækja. Til lengri tíma litið þarf hins vegar að kaupa sparneytnari bifreiðar.

Kaupverð bifreiða eða annarra tækja er yfirleitt minnstur hluti af líftímakostnaði þeirra. Rekstur og viðhald á líftíma bifreiða er á bilinu 3-5 sinnum hærri en upphaflega kaupverðið. Fyrirtæki sem eru að vinna að umhverfismálum eru meðvituð um umhverfisáhrif á líftíma tækja og hafa meiri tilhneigingu til að taka kostnað tækisins á líftíma þess til athugunar en að einblína á kaupverð eingöngu.

Fyrirtæki sem hafa tileinkað sér umhverfishugsun hafa einnig tileinkað sér það að kaupa það sem er raunveruleg þörf á að kaupa. Það er því miður allt of algengt að kaupa bifreiðar eða önnur tæki sem eiga að geta ráðið við hugsanlega hámarksþörf. Í stað þess að kaupa bifreið eða tæki sem getur afkastað 98% af öllum verkefnum sem bifreiðin á að anna, kaupa fyrirtæki bifreið sem er í 98% tilfella of stór fyrir það sem hún á að anna. Umhverfisstjórnun miðast mikið við að nota réttar auðlindir í réttu magni til að leysa ákveðin verkefni.

Þar sem umhverfismál fjalla um að spara auðlindir í hvaða formi sem þær eru, fjalla þau einnig um fjárhagslegan sparnað. Mörg fyrirtæki eru stöðugt að leita sér leiða til að minnka kostnað. Að vinna að umhverfismálum er bara enn einn vinkillinn og enn ein röksemdin fyrir að finna hagkvæmari leiðir til að leysa ákveðin vandamál. Þegar aðferðarfræði umhverfisstjórnunar er notuð við að minnka sóun í fyrirtækjum/heimilum þá koma oft í ljós önnur atriði en þau sem yfirleitt er verið að skoða þegar verið er að skoða þegar markmiðið er bara sparnaður. Í umhverfismálum er ekki bara verið að horfa á stóru kostnaðarliðina heldur marga smáa, og það undarlega er að margt smátt gerir eitt stórt.

Sjá „Hinn óbeini sparnaður umhverfisstarfs“.

Grafik: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is

Birt:
20. apríl 2010
Höfundur:
Finnur Sveinsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Hagnaður umhverfisstarfs“, Náttúran.is: 20. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2007/05/26/hagnaur-umhverfisstarfs/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. maí 2007
breytt: 14. júní 2014

Skilaboð: