Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann 30. september s.l. var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða vegna liðar 1 í fundargerð skipulags- og bygginganefndar frá 15. september s.l. þar sem fjallað er um "Tillögu að breytingum á aðalskipulagi Ölfuss, vegna Bitruvirkjunar, Hellisheiðarvirkjunar, iðnaðarsvæða við Þorlákshöfn og Gráuhnúka [...]" :

Bæjarstjórn tekur undir álit skipulags- og bygginganefndar með eftirfarandi bókun:

Bæjarstjórn mótmælir harðlega tillögum um iðnaðarsvæði við Bitru þar sem hún telur að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu muni hafa veruleg skaðleg áhrif bæði á umhverfi og samfélag einkum í Hveragerði og nágrenni. Bæjarstjórn vísar í þessu sambandi í umsagnir sínar um sama mál frá 2007 og 2008, þar sem hún telur að fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa skaðleg áhrif á möguleika Hveragerðis og nágrennis sem íbúða-, heilsu- og ferðamannasvæðis.

  • Í útsendum gögnum er ekki minnst einu orði á hugsanleg alvarleg áhrif af losun brennisteinsvetnis og annarra eiturefna frá Bitruvirkjun á líf og heilsu íbúa í Hveragerði. Bæjarstjórn mótmælir því harðlega að íbúar Hveragerðis og næsta nágrennis verði notaðir sem tilraunadýr, þegar horft er til þeirra alvarlegu áhrifa sem brennisteinsvetni, í því magni sem hér um ræðir, getur haft á heilsu fólks skv. því sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur þegar bent á í skýrslu stofnunarinnar (Sjá skýrslu WHO: Hydrogen Sulfide: Human Health Aspects, Genf, 2003). Sönnunarbyrðin og hin siðferðislega ábyrgð liggur hér alfarið hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélaginu Ölfusi sem ber ábyrgð á skipulagsmálum svæðisins.
  • Bæjarstjórn lýsir sérstökum áhyggjum af því að Reykjadalur og nágrenni verði á löngum tímabilum hugsanlega óhæfur til útivistar vegna mengunar af völdum brennisteinsvetnis. Mikil hætta er á að ferðaþjónusta skaðist af völdum fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda með því að það bakland sem hún byggir á verði ónothæft með einhverjum hætti.
  • Í Hveragerði eru reknar mikilvægar stofnanir á sviði öldrunar og heilsuverndar þ.e. Dvalarheimilið Ás og Heilsustofnun NLFÍ. Mengun af völdum eiturefna eða jafnvel minnsti grunur um slíka mengun yrði þessum stofnunum til óbætanlegs tjóns og myndi skaða alla framtíðarmöguleika um uppbyggingu heilsu- og ferðamannaþjónustu i bæjarfélaginu en slík uppbygging hefur verið yfirlýst stefna bæjaryfirvalda til margra ára.
  • Blásandi borholur við Hellisheiðarvirkjun og Hverahlíð valda nú þegar óþægindum hjá þeim sem aka þjóðveginn yfir Hellisheiði. Ekki hefur enn verið settur upp virkur hreinsibúnaður fyrir brennisteinsvetni eða aðra eiturefnamengun á Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun en slíkt er algjör forsenda þess að farið sé í frekari jarðhitavirkjanir á svæðinu.
  • Bæjarstjórn mótmælir tillögum um afléttingu vatnsverndar í kringum Bitru og Hverahlíð. Bæjarstjórn telur að ekki sé sýnt fram á það með óyggjandi hætti að vatnsból muni ekki mengast af völdum virkjanaframkvæmda á svæðinu. Minnsti efi um þetta atriði er með öllu óásættanlegur.

Bæjarstjórn hvetur Alþingi eindregið til að vinna að friðun Bitrusvæðisins og næsta nágrenni þess fyrir hvers kyns virkjanahugmyndum eða öðrum iðnaðarframkvæmdum og hlúa þannig að því sem útivistarsvæðis. Jafnframt eru orkufyrirtækin hvött til þess að kynna sér betur sjónarmið Hvergerðinga og þær rannsóknir sem til eru um áhrif brennisteinsvetnismengunar á mannslíkamann.

Ísland hefur alla burði til að vinna að sjálfbærri þróun og að taka þannig forystu á heimsvísu í þeim efnum. Virkjanir orku í landinu eru almennt þess eðlis að náðst hafa sæmilegar sættir um þær sem sjálfbærar. Aldrei getur náðst sátt um það að ráðast í svo umdeilda framkvæmd sem virkjun Bitru er. Virkjunin mundi einungis skaða góða ímynd orkugeirans bæði innanlands sem utan.

Mynd: Skuggi í hver innarlega í Reykjadal ofan Hveragerðis. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
5. október 2009
Tilvitnun:
Bæjarstjórn Hveragerðis „Bæjarstjórn Hveragerðis mótmælir harðlega tillögum um iðnaðarsvæði við Bitru“, Náttúran.is: 5. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/05/baejarstjorn-motmaelir-harolega-tillogum-um-ionaoa/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. nóvember 2014

Skilaboð: