Yfir eitt hundrað manns sóttu málþing Landverndar og Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi í Norræna húsinu í dag. Til umræðu voru áhrif virkjana í Hólmsá og Skaftá.  

Haukur Jóhannesson jarðfræðingur ræddi um einstaka jarðfræði svæðisins, en frá Eldgjá og Lakagígum hafa runnið mestu hraunflóð á jörðinni á sögulegum tíma. Snorri Baldursson þjóðgarðsvörður dró fram sérstöðu lífríkis sem felst ekki síst í mosa og- fléttugrónum hraunum sem einstök eru á heimsvísu. Í máli Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, formanns faghóps I í rammaáætlun 2 kom fram að vatnasvið Skaftár/Tungufljóts og Hólmsár búi yfir miklum verðmætum í náttúru og menningarminjum. Faghópur I taldi að þennan hluta miðhálendins ætti að vernda í heild sinni. Því er ljóst að báðar virkjunarhugmyndirnar ættu að raðast í verndarflokk.

Vigfús Gunnar Gíslason frá Flögu í Skaftártungu sýndi myndir frá svæðinu og ræddi um upplifun sína af landinu og hvernig virkjanir myndu breyta landslagi. Heiða Ásgeirsdóttir bóndi á Ljótarstöðum velti fyrir sér áhrifum virkjana á landbúnað og mannlíf í Skaftárhreppi og sagði m.a.: „Ég ætla fyrir fullum seglum inn í framtíðina með mína óbilandi, bjargföstu trú á íslenskan landbúnað og ég veit að margir sveitungar mínir eru sama sinnis. Ég sel ekki vatnsréttinn í Tungufljóti, ég sel ekki land undan Ljótarstöðunum og fleiri vatnsréttarhafar og landeigendur í Skaftártungu hafa gefið út sömu yfirlýsingu. Það mun því verða að fara í afar subbulegar eignarnámsaðgerðir ef af Búlandsvirkjun á að verða“.

Efri ljósmynd: Flögulón, Haukur Snorrason. 
Neðri ljósmynd: Frá málþinginu í dag, ingibjörg Eiríksdóttir.

Birt:
5. maí 2012
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Fjölmennt á málþingi Landverndar og Eldvatna - samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi“, Náttúran.is: 5. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/05/fjolmennt-imalthing-landverndar-og-eldvatna-samtak/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: